Uppbyggingarsjóður Vestfjarða: 17 styrkir til atvinnuþróunar og nýsköpunar

Frá náttúrubarnahátíð á Sævangi í Tungusveit.

Uppbyggingarsjóður Vestfjarða hefur veitt 17 styrki til atvinnuþróunar og nýsköpunar á næsta ári samtals að fjárhæð 16,7 m.kr.

Hæstu styrkirnar eru 2 m.kr. og fengu tvö verkefni þá upphæð, auk þess voru tveir 1,8 m.kr. styrkir.

Eyrarkláfur ehf Ísafirði fékk 2 m.kr. styrk til gerðar umhverfismats vegna áforma um kláf upp á Eyrarfjall. Hitt verkefnið sem fékk 2 m.kr. styrk er til 425 ehf á Flateyri. Fyrirtækið ætlar að breyta iðnaðarhúsnæði sínu á Flateyri í matvælavinnslu og hefja þar rekstur, framleiðslu og sölu á hinum ýmsu sveppaafurðum undir vörumerkinu Villt að vestan. Verða þróaðar sósublöndur með vestfirskum skógarsveppum fyrir verslanir Haga.

Sauðfjársetur á Ströndum fékk 1.8 m.kr. styrk vegna náttúrubarnaskóla og náttúrubarnahátíðar. Verkefnið snýst um uppbyggingu menntatengdrar ferðaþjónustu sem byggir á náttúrutúlkun og þjóðfræði. Á árinu 2024 verður áhersla lögð á viðamikla og vandaða Náttúrubarnahátíð, einnig að færa verkefnið í átt til sjálfbærni með markaðssetningu fyrir ólíka hópa, ferðafólk og heimamenn.

Úr sveitinni ehf Kollafirði í Strandasýslu fékk einnig 1,8 m.kr. styrk. Verkefnið nefnist strandfóður og í lýsingu Uppbyggingarsjóðs segir að ætlunin sé að „upphefja hlunnindi sjávarjarða á nýjan leik með nýrri hugsun og aðferðafræði hringrásarhagkerfsins. Með því að samtengja landbúnaðarframleiðslu þannig að hringrás næringarferla frá landi til sjávar verði opnuð, eru tækifæri til aukinnar sjálfbærni og rekstrarhagkvæmni með minnkun notkunar á aðkeyptum aðföngum til landbúnaðar.“

Skútusiglingar ehf Ísafirði fengu 1,2 m.kr. styrk til siglinga um Ísafjarðardjúp. Um er að ræða samstarf Borea Adventures og Ögurtravel sem byggir á siglingum um Djúpið með viðkomu í Ögri.

Gylfi Ólafsson Ísafirði fékk 1.1 m.kr. styrk til að þróa áfram viðskiptahugmynd um upplifunarsýningu á Ísafirði og meta kostnað. Aðalmarkhópurinn er skemmtiskipafarþegar og á sýningin að geta tekið stóra hópa farþega.

Cristina Isabelle Cotofana Hólmavík hlaut 1 m.kr. styrk til að vinna úr sveppum.

Úthlutað var smærri styrkjum til 9 aðila eftirfarandi:

Skíðafélag Strandamanna Hólmavík 900.000 kr. vegna vetrarviðburða.

Samfélagsmiðstöðin á Þingeyri ses. Þingeyri 800.000 kr. vegna Startup Westfjords 24.

Galdur Brugghús ehf Hólmavík 700.000 kr. vegna markaðssóknar Galdurs Brugghús.

Travel West ehf Patreksfirði fékk einnig 700.000 kr. styrk til að setja upp rafmagnshjólaferðir um Vestfirði.

Leiry Seron Ísafirði 500.000 kr. til að gera app sem nenfist ridesharing.

Hjartarót ehf Ísafirði 500.000 kr. til að skoða fýsileika þess að rækta lífræna hágæða burnirót með sjálfbærum hætti á norðanverðum Vestfjörðum og gera viðskiptaáætlun fyrir verkefnið.

Fjólubláa húfan ehf Ísafirði 500.000 kr. til þess að gefa út sófaborðsbók á ensku þar sem sérkenni Vestfjarða verða dregin fram.

Guðfinna Lára Hávarðardóttir Kollafirði fékk 500.000 kr. styrk til þess að hanna fjárhúss sem hentar fyrir fjölbreytt framleiðslukerfi og innleiðir tæknilausnir eftir fremsta megni.

Ólöf Dómhildur Jóhannsdóttir Ísafirði 500.000 kr. styrk til þess að vinna að sköpun, hönnun og smíð á frumgerðum af minjagripum sem hægt er að stinga í vasann.

Menntaskólinn á Ísafirði 200.000 kr. styrk til til kynningar og viðburðahalds.

DEILA