Uppbyggingarsjóður Vestfjarða úthlutar 57 styrkjum að fjárhæð 56,7 m.kr.

Skrímslasetrið á Bíldudal.

Uppbyggingarsjóður Vestfjarða úthlutaði í síðustu viku styrkjum vegna ársins 2024. Alls voru veittir 57 styrkir samtals að fjárhæð 44,8 m.kr. Auk þeirra eru 6 verkefni sem hafa þegar hlotið styrkvilyrði að fjárhæð 11,8 m.kr. , svo alls eru það 63 verkefni sem hljóta styrkvilyrði og koma til framkvæmda á árinu 2024. Samtals er fjárhæðin 56,7 m.kr. Úthlutað er í þremur flokkum; stofn- og rekstrarstyrkir til menningarstofnana, styrkir til atvinnuþróunar- og nýsköpunarverkefna og styrkir til menningarverkefna.

Þetta er síðasta styrkveitingin úr Sóknaráætlun Vestfjarða en hún gildir út árið 2024. Stefnt er að því að hefja vinnu við gerð nýrrar sóknaráætlun með vorinu og mun hún væntanlega gilda í 5 ár segir í frétt á vefsíðu Vestfjarðastofu.

Stofn- og rekstrarstyrkir

Hæsta styrkinn fær Skrímslasetrið Bíldudal 2.750.000 kr.

Skrímslasetrið á Bíldudal hefur verið rekið allt frá árinu 2009. Uppbygging setursins er ekki lokið hvorki á sýningu né húsnæði segir í lýsingu á verkefninu. Þróun sýningarinnar og uppbygging húsnæðisins um leið hefur verið erfið en viðhald á svona gömlu húsnæði(1938) tekur í. Verkefni næstu ára er að ná að ljúka uppbyggingu bæði á húsnæði og sýningu.

Aðrir styrkir í þessum flokki eru:

Edinborgarhúsið Ísafirði fær 2.500.000 kr. styrk.

Strandagaldur Hólmavík 2.000.000 kr.

Sauðfjársetur á Ströndum Steingrímsfirði 1.500.000 kr.

Kómedíuleikhúsið, atvinnuleikhús Vestfjarða Dýrafirði 1.800.000 kr.

Báta- og hlunnindasýningin Reykhólum 1.500.000 kr.

Hversdagssafn // Hvers museum Ísafirði 1.200.000 kr.

ArtsIceland og Úthverfa Ísafirði 1.000.000 kr.

DEILA