Verkefni Innheimtustofnunar sveitarfélaga til sýslumanns

Verkefni Innheimtustofnunar sveitarfélaga verða færð til Sýslumannsins á Norðurlandi vestra segir í fréttatilkynningu frá Dómsmálaráðuneytinu. Það sýslumannsembætti þótti vænlegur valkostur fyrir móttöku verkefnisins vegna samlegðar við önnur sérverkefni þess, svo sem innheimtumiðstöðvarinnar á Blönduósi sem er á ábyrgð embættisins. Dómsmálaráðuneytið og innviðaráðuneytið hafa unnið að þessum breytingum í sameiningu þar sem það fellur vel að byggðaáætlun og sameiginlegum markmiðum ráðuneytanna um að efla landsbyggðina.

Innheimtustofnun sveitarfélaga hefur verið rekin af sambandi íslenskra sveitarfélaga og stjórnin skipuð fulltrúum þess en nú færast verkefnin til ríkisins og verða þau hjá sýslumannsembættum.

Þá segir í tilkynningunni að verkefnaflutningurinn sé til þess fallinn að fjölga sérhæfðum störfum á landsbyggðinni og styrki því starfsstöðvar sýslumanns á landsbyggðinni með fjölgun stöðugilda.

Þá fylgi ýmsir hagræðingarmöguleikar breytingunum vegna samlegðar við annan rekstur innheimtumiðstöðvarinnar á Blönduósi, svo sem yfirstjórn og upplýsingatækni. Ljóst þykir að ýmis tækifæri séu fyrir hendi, sem felast í endurskoðun verkferla með tilliti til aukinnar nýtingar tækninnar við framkvæmd innheimtu, þar á meðal meðlaga og annarra framfærsluframlaga.

Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri er í fráfarandi stjórn Innheimtustöðvarinnar og hann segir að breytingin eigi ekki að hafa áhrif á starfsstöð Innheimtustofnunarinnar á Ísafirði.

„Fráfarandi stjórn hefur lagt áherslu á að starfsemin haldi áfram í óbreyttu horfi. Öllu starfsfólki á Ísafirði hefur verið boðin áframhaldandi starf hjá sýslumanni.“

DEILA