Eldisfiskur: aflagjaldið gefur hafnarsjóði drjúgar tekjur

Þjónustuskipið Novatrans við Brjótinn í Bolungavík í byrjun mánaðarins. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson

Í október var landað 1.528 tonnum af eldisfiski í Boungavíkurhöfn til slátrunar í Drimlu, laxasláturhúsinu nýja í eigu Arctic Fish. Samkvæmt upplýsingum frá Bolungavíkurkaupstað nam aflagjaldið 8,6 m.kr.

Að meðaltali var því greitt 5,63 kr/kg af eldisfiski.

Frá því að slátrun hófst í Bolungavík í júní og til og með október hefur hafnarsjóður fengið 12,2 m.kr. í aflagjald af eldisfiski.

Vesturbyggð fékk í sama mánuði 18,6 m.kr. í aflagjald fyrir 2.608 tonn af eldisfiski. Á árinu til októberloka eru útgefnir reikningar Vesturbyggðar vegna aflagjalds af eldisfiski orðnir 128 m.kr.

Ágreiningur er um hluta af útgefnum reikningum hafnarinnar vegna gjaldskrárhækkunar á árinu 2019. Eldisfyrirtækin samþykkja ekki hækkunina og vilja greiða samkvæmt eldri gjaldskrá. Vesturbyggð tapaði máli í héraðsdómi Vestfjarða sem það höfðaði gegn Arnarlaxi til greiðslu á mismuninum.

Ekki liggur fyrir hver ágreiningsupphæðin er af aflagjöldunum í október. Ágreiningurinn snýst um hækkun á aflagjaldi úr 0,6% í 0,7% af verði eldisfisksins og einnig um að Vesturbyggð tók upp aðra viðmiðun og hærri á verðmæti fisksins sem aflagjaldið reiknast af. Munurinn gæti verið um 20% og að teknu tilliti til þess verður meðalverðið 5,94 kr/kg af eldisfiski í október.

Samkvæmt þessum tölum er meðalverðið í Vesturbyggð 5,5% hærra í október en í Bolungavík.

DEILA