Jöfnunarsjóður sveitarfélaga: framlög lækka til Vestfjarða

Horft eftir Hafnarstræti. Stuðningur Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga við Ísafjarðarbæ mun aukast. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Framlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til sveitarfélaga á Vestfjörðum munu lækka um 80 m.kr. á ári samkvæmt tillögum að nýju úthlutunarkerfi Jöfnunarsjóðs sem lagt er til að verði tekið upp. Liggur frumvarp Innviðaráðherra fyrir Alþingi þar að lútandi.

Millistór fjölkjarna sveitarfélag munu fá aukið fé úr sjóðnum. Gagnast það Ísafjarðarbæ og munu framlög til þess hækka úr 833 m.kr. á ári í 1.004 m.kr. eða um 171 m.kr. sem er 20,6% hækkun. Bolungavíkurkaupstaður mun einnig fá hærri framlög og verða þau 248 m.kr. í stað 216 m.kr.sem er 14,9% hækkun. Hins vegar munu sjö sveitarfélög á Vestfjörðum fá lægri framlög en nú er og lækka framlögum um 283 m.kr. samtals hjá þeim á hverju ári.

Þetta kemur fram í yfirliti um breytinguna sem birt er í skýrslu starfshóps frá mars 2023 um endurskoðun á regluverki Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Er frumvarpið byggt á tillögum sem þar eru.

Vesturbyggð og Tálknafjarðarhreppur hafa ákveðið að sameinaast á næsta ári og breytir það myndinni hvað þau varðar. Í stað þess að framlögin myndu lækka um 21 m.kr. á ári munu þau hækka um 32 m.kr. samkvæmt því sem fram kemur í stöðugreiningu sveitarfélaganna sem lögð var fram fyrir sameiningarkosningarnar í haust. Þá fá sveitarfélögin samtals 761 m.kr. í framlög vegna sameiningarinnar.

Árneshreppur missir allt framlag Jöfnunarsjóðsins

Fimm sveitarfélög munu verða fyrir verulegri skerðingu á framlagi úr Jöfnunarsjóðnum. Árneshreppur mun missa allt núverandi framlag og fá ekkert. Kaldrananeshreppur missir nærri 80% af framlögunum og lækkar úr 25 m.kr. í 5 mkr. Súðavíkurhreppur fær 66 m.kr. minna eftir breytinguna og Reykhólahreppur lækkar um 92 m.kr. Í báðum tilvikum dregur Jöfnunarsjóðurinn úr framlögum sínum um meira en 50%. Loks lækka framlögin til Strandabyggðar um 37% eða um 73 m.kr.

Í heildina verða framlögun til jöfnunar á Vestfjörðum lægri eftir breytingu en þau eru nú. Eldri framlög nema 1,952 m.kr. en ný framlög verða 1.872 m.kr.

DEILA