Jöfnunarsjóður sveitarfélaga: framlag til Reykjavíkurborgar vegna sérstakra áskorana

Frá Reykjavík.

Í nýju frumvarpi Innviðaráðherra um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga er lagt til að umbylta stuðningi ríkisins til jöfnunar á getu sveitarfélaga til þess að sinna hlutverki sínu. Um er að ræða um 30 milljarða króna úr ríkissjóði. Meðal nýmæla er að vegna sérstakra áskorana verði tekið upp höfuðstaðarálag , sem skulu nema allt að 2,5% af þessum tekjum sjóðsins.

Næsta ár verði þó aðeins 1% af tekjum sjóðsins til höfuðstaðaálagsins, 1,75% árið 2025 og fullt framlag 2,5% árið 2026.

Framlögum vegna höfuðstaðarálags skal úthlutað til Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar og skiptist framlagið eftir fjölda íbúa þeirra 1. janúar ár hvert. Reykjavíkurborg myndi fá 237 m.kr. á næsta ári og Akureyrarbær 34 m.kr.

Þegar ákvæðið verður komið að fullu til framkvæmda árið 2026 færi 766 m.kr. af tekjum Jöfnunarsjóðs frá ríkissjóði til höfuðstaðaálagsins og um 88% þess rynni til Reykjavíkurborgar eða 674 m.kr.

Í skýringum í frumvarpinu segir að framlaginu sé ætlað að mæta þeim áskorunum sem ekki verða jafnaðar í nýju líkani sjóðsins. Þá segir: „Höfuðstaðir sinna þjónustu sem önnur sveitarfélög sinna í minna mæli, eða sinna ekki. Slík þjónusta er til að mynda flókin og margþætt félagsleg þjónusta og þjónusta við heimilislausa. Í skýrslu starfshópsins er bent á að slíkt álag eigi helst við um sveitarfélögin Reykjavíkurborg og Akureyrarbæ, þar sem íbúar nærliggjandi sveitarfélaga sækja ákveðna tegund þjónustu til þeirra.“

DEILA