Ísafjarðarbær: 1.324 m.kr. í framkvæmdir á næsta ári

Sundahöfn. Dýpkunarskipið siglir framhjá skemmtiferðaskipi. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar hefur afgreitt frá sér tillögu að fjárfestingum næsta árs og verður hún afgreidd á bæjarstjórnarfundi seinna í dag. Samkvæmt tillögunni verða heildarframkvæmdir 1.324 m.kr. og hlutur sveitarfélagsins í þeim verður 895 m.kr.

Hafnarsjóður mun framkvæma fyrir 441,3 m.kr. Endurgreiðslur ríkisins verða 101,3 m.kr. og ber hafnarsjóður því 340 m.kr. af kostnaðinum. Langstærsta framkvæmdin er í Sundahöfn á Ísafirði er áformað er að ljúka framkvæmdum þar næsta sumar. Ein milljón er sett í framkvæmdir í Þingeyrarhöfn.

Framkvæmdir við ofanflóðamannvirki verða 300 m.kr. og greiðir ríkið 270 m.kr. af þeim kostnaði. Um er að ræða mannvirki á Flateyri. Til íþróttamannvirkja verður varið 120 m.kr., 67 m.kr. til gatnaframkvæmda, 69 m.kr. til húsnæðis og 27 m.kr. til skólahúsnæðis. Til opinna svæða eru áætlaðar 33 m.kr. og 35 m.kr. til bifreiða, véla og tækja.

Tekjur af gatnagerðargjöldum eru áætlaðar 30 m.kr.

Til framkvæmda við fráveitur eru settar 143 m.kr. og gert ráð fyrir að fá í tekjur 28 m.kr. Vatnsveituframkvæmdir verða 65 m.kr., til Funa er varið 15 m.kr. og 10 m.kr. til þjónustuíbúða.

DEILA