Sjávarútvegsstefna: byggðakvóti verði boðinn upp

Svndís Svavarsdóttir, matvælaráðherra.

Matvælaráðherra hefur birt í samráðsgátt drög að frumvarpi til laga um sjávarútveg. Þar segir að helstu nýmæli frumvarpsins byggi á tillögum starfshópa Auðlindarinnar okkar, en þar er lögð áhersla á umhverfisþátt sjálfbærar þróunar og að nýting nytjastofna taki mið af vistkerfis- og varúðarnálgun. Þá er kveðið á um verndarsvæði í hafi og að stýring veiðiálags miðist við veiðarfæri og umhverfisáhrif þeirra í stað stærðar báta. Einnig er lögð áhersla á að auka gagnsæi, er varða eigna- og stjórnunartengsl útgerða, skýra hugtök og auka aðgengi að gögnum og birtingu upplýsinga. 

Meðal þess sem lagt er til er að byggðakvóti, línuívilnun og skel- og rækjubætur verði aflagðar. Tekinn verði upp svokallaður innviðastuðningur með sölu aflaheimilda á uppboði.

Á hverju fiskveiðiári verði ráðherra heimilt að ráðstafa hlutfalli af heildarafla í óslægðum botnfiski til innviðastuðnings og skal það boðið upp til eins árs í senn. Fiskistofa skal sjá um markað fyrir uppboð aflamarksins og auglýsir eftir tilboðum. Ráðherra skuli með reglugerð kveða nánar fyrir um markað, tilboðsfresti, skilmála og framkvæmd.

Tekjur af leigu aflamarksins skulu renna í ríkissjóð til að mæta stuðningi við sjávarbyggðir. Ráðherra úthluti svo tímabundnum framlögum til innviðastuðnings í sjávarbyggðum þar sem verulega hefur dregið úr sjávarútvegi og þörf er fyrir aðra atvinnusköpun.

Ráðherra skuli með reglugerð kveða nánar á um þau skilyrði sem sjávarbyggðir þurfa að uppfylla til að fá innviðastuðning, úthlutun innviðastuðnings og hvernig stuðningurinn skiptist á milli sjávarbyggða, eftirlit og eftirfylgni.

Lagt er til að aflaheimildum sem úthlutað hefur verið árlega til núgildandi almenns byggðakvóta skv. ákvæðum laga um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006, verði af hálfu stjórnvalda boðnar upp.

Þær tekjur sem þar skapast muni renna í ríkissjóð. Þá verði ráðherra veitt heimild til að ákveða fjárheimild í fjárlögum til að ákvarða fjárveitingu til innviðastuðnings sjávarbyggða.

Lagt er til að sjávarbyggð samkvæmt frumvarpinu sé byggðalag við sjávarsíðuna, þar sem fiskveiðar og/eða fiskvinnsla eru eða hafa verið stundaðar á síðustu 30 árum.

DEILA