Ísafjarðarbær: Botnsvirkjun í Dýrafirði þarf ekki í umhverfismat

Skipulagsstofnun hefur sent til umsagnar áform landeigenda jarðanna Botns og Dranga í Dýrafirði um 5 MW rennslisvirkjun sem nýtir hluta af rennsli Botnsár og Drangár. Markmið landeigenda Botns og Dranga er að auka orkuvinnslu á Vestfjörðum á hagkvæman og umhverfisvænan máta.

Áætlað er að inntaksmannvirki og aðveituskurðir verði staðsett í allt að 450 m h.y.s. í fjarðarbotninum og þaðan liggi niðurgrafin þrýstipípa sunnan árinnar í landi Dranga um 3,5 km leið að stöðvarhúsi sem staðsett verði í um 20 m h.y.s. Stærð stöðvarhúss er áætluð allt að 150 m². Tenging virkjunarinnar yrði með jarðstreng að munna Dýrafjarðarganga.

Botnsá og Drangá eru dragár sem renna til sjávar í botni Dýrafjarðar og eiga þær upptök sín að mestu í vötnum á Glámuhálendinu.

Skipulags- og mannvirkjanefnd Ísafjarðarbæjar hefur tekið erindið fyrir og telu ekki þörf á að fram fari mat á umhverfisáhrifum. Segir nefndin í umsögn sinni að nægjanlega sé gerð grein fyrir framkvæmdinni, umhverfi hennar, umhverfisáhrifum, mótvægisaðgerðum og vöktun eftir því sem við á í skýrslu Verkís. Það er einnig niðurstaða framkvæmdaraðila að uppbygging virkjunar í Dýrafjarðarbotni sé ekki líkleg til að hafa umtalsverð umhverfisáhrif í för með sér og skuli því ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Að fengnum umsögnum frá ýmsum aðilum tekur Skipulagsstofnun ákvörðun um það hvort mat á umhverfisáhrifum skuli fara fram.

DEILA