Fiskeldisgjald hækkar líklega um 140%

Kvíar í Arnarfirði. Fiskeldið greiðir hærra gjald í ríkissjóð en greitt er af þorski.

Fiskistofa hefur birt tilkynningu á vef sínum um fiskeldisgjald fyrir næsta ár, en það er lagt á fyrirtæki með leyfi til fiskeldis í sjó. Verður gjaldið 30,77 kr. fyrir hvert slægt kg af eldislaxi.

Gjaldið er helmingur þess eða 15,39 kr/kg af regnbogasilungi, ófrjóum laxi eða laxi sem alinn er í sjó með lokuðum eldisbúnaði.

Á þessu ári er fiskeldisgjaldið 18,33 kr. fyrir hvert kg af slægðum laxi. Nemur hækkunin 68% milli ára.

Miðað er við 12 mánaða meðaltal alþjóðlegs markaðsverðs á Atlantshafslaxi og er gjaldið 3,5% þegar verð er 4,8 evrur á kílógramm eða hærra, 2% þegar verð er 4,3 evrur á kílógramm eða hærra en þó lægra en 4,8 evrur á kílógramm og 0,5% þegar verð er lægra en 4,3 evrur á kílógramm. Gjaldið var lögfest 2019 og var fyrst innheimt fyrir árið 2020. Gjaldið verður innheimt að fullu árið 2026 en innleitt í áföngum fram að því og er á næsta ári 2024 innheimt 5/7 af fullu gjaldi.

Nær allur eldisfiskur fer í hæsta gjaldflokk 3,5%.

Tekjur af fiskeldisgjaldinu gætu orðið um 1,5 milljarður króna á næsta ári miðað við 50 þúsund tonna framleiðslu. Útgefin framleiðsluleyfi eru um 100 þúsund tonn og væru þau fullnýtt mætti ætla að tekjurnar af gjaldinu yrðu um 4,5 milljarðar króna þegar gjaldið er að fullu komið til framkvæmda árið 2026.

Frv um 5% fiskeldisgjald

Fyrir Alþingi liggur frumvarp frá fjármálaráðherra um hækkun fiskeldisgjaldsins úr 3,5% í 5% af markaðsvirði og er gert ráð fyrir að breytingin taki gildi um áramótin.

Verði frumvarpið samþykkt má ætla að fiskeldisgjaldið verði 43,96 kr./kg á næsta ári og hafi þá hækkað um 140% frá gjaldinu á þessu ári.

Til viðbótar eiga tvær áfangahækkanir eftir að koma til framkvæmda á næstu tveimur árum. Gangi þær eftir og framleiðsluleyfin verði fullnýtt gæti tekjur ríkisins af fiskeldisgjaldinu orðið rúmlega 6 milljarðar króna á ári.

Eldislaxinn tvöfalt verðmeiri skattstofn

Til samanburðar þá er veiðigjaldið sem greitt er ríkinu af veiðum á þorski 19,17 kr./kg , óslægt. Ætla má að veiðigjaldið af þorski verði um 3,8 milljarðar króna á yfirstandandi fiskveiðiári af um 200 þúsund tonna afla.

Ljóst er að eldslaxinn er þegar orðinn mun verðmeiri en þorskurinn þegar horft er til gjaldtöku ríkisins á hvert kg og stefnir í að greitt verði rúmlega tvöfalt meira af eldislaxi en þorski í ríkissjóð af hverju kg.

-k

DEILA