Ísafjarðarbær: 15% hækkun sorphirðu

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar samþykkti í byrjun október nýja gjaldskrá fyrir sorphirðu sem gilda á á næsta ári. Samþykktin hefur ekki enn verið birt. Í minnisblaði fjármálastjóra segir að 50 % af kostnaði við sorphirðu sé rukkaður í gegnum fastan kostnað „rekstur grenndar- og söfnunarstöðva“. Hin 50% eru rukkuð með ílátagjöldum. Sorphirða skuli rekin á núlli.

Samþykkt var 15% hækkun á gjaldskrá sorphirðu til að mæta auknum kostnaði vegna vísitöluhækkana og viðbótar útgjalda. Gjöld á viðmiðunareign, íbúðarhús með tvær tvískiptar tunnur er 68.750 kr. fyrir árið 2023 og hækkar í 79.000 kr. fyrir árið 2024. Hækkunin á íbúa viðmiðunareignar nemur 10.250 kr.

Í minnisblaðinu segir að innheimta eigi skrefagjald frá 1.10.2023 út frá staðsetningum íláta meira en 15 metra frá sorphirðubíl. Engin úttekt hafi verið gerð á því um hvaða staðföng er að ræða og því fyrirséð að ekki verði hægt að leggja gjaldið á, á þessu ári.

Skrefagjaldið miðar við 50% álag per tunnu og væri þá á árinu 2024 m.v. 20% verðhækkun, álag upp á 22.350 kr. Með þessu gjaldi væri verið að hvetja íbúa til að færa tunnur nær sorphirðubílnum til að flýta fyrir losun og auka skilvikni sem leiðir til lækkunar á kostnaði segir í minnisblaðinu.

Nú er til meðferðar í bæjarráði og umhverfis- og framkvæmdanefnd endurskoðun á gjaldskránni og hefur nefndin samþykkt breytingarnar og vísað þeim til bæjarráðs. Meðal breytinga er að alls staðar verða 10 metra viðmið vegna losunar sorps frá lóðamörkum, í stað 15 metra og að gjaldskrá verði tvöfölduð – „þ.e. annars vegar gjald miðað við að tunnur séu staðsettar á söfnunartíma hirðubíls í meira eða minna en 10 metra frá lóðamörkum.“ eins og segir í minnisblaði sviðsstjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs.

Bæjarráðið leggur til við bæjarstjórn að samþykkja breytingarnar þó þannig að  ekki verði innheimt skv. 10 metra reglu fyrr en 1. september 2024, þannig að íbúum gefist kostur á að nýta vor og sumar 2024 til að bæta aðstöðu fyrir sorpílát.

Ekki kemur fram hver heildarhækkunin verður á sorphirðugjöldum að teknu tilliti til framlagðra breytinga en bæjarráð bókaði að ekki verði um hækkun að ræða.

DEILA