Tveir nýir stjórnendur hjá Arctic Fish

Baldur Smári Einarsson hefur verið ráðinn fjármálastjóri (CFO) hjá Arctic Fish frá og með 1. janúar næst komandi. Baldur Smári hefur starfað hjá Arctic Fish síðan 2019 sem sérfræðingur í fjármáladeild. Baldur Smári er með Cand. Oecon gráðu í Viðskiptafræði af endurskoðunarsviði frá Háskóla Íslands og hefur víðtæka reynslu úr fjármálum og endurskoðun.

„Það er okkur mikil ánægja að Baldur Smári hafi viljað taka við sem fjármálastjóri félagsins. Hann hefur unnið hjá félaginu um árabil og þekkir því félagið vel og er með þá reynslu og þekkingu sem við leituðum að,“ segir Stein Ove Tveiten forstjóri Arctic Fish.

„Ég er þakklátur fyrir það traust sem yfirstjórn félagsins sýnir mér með því að fá að taka við þessu mikilvæga starfi. Arctic Fish hefur alla burði til að vaxa og dafna áfram og það er spennandi vegferð framundan. Ég er fæddur og uppalinn á Vestfjörðum og hef séð hvað fiskeldið hefur breytt miklu fyrir byggðirnar hér,“ segir Baldur Smári Einarsson

Baldur Smári tekur við af Shirani Þórissyni sem sagði upp störfum í ágúst s.l.

John Gunnar Grindskar, nýr framkvæmdastjóri eldis

John Gunnar Grindskar hefur verið ráðin framkvæmdastjóri eldis (COO Farming) hjá Arctic Fish. John Gunnar hefur störf 1. desember en um er að ræða nýja stöðu hjá félaginu. Allt seiða- og sjóeldi félagsins mun heyra undir starfssvið hans.

John Gunnar hefur mikla reynslu úr sjóeldi. Hann hóf störf hjá Mowi í Noregi 1992 og hefur síðan þá verið í ýmsum stöðum í sjóeldi um allan Noreg, nú síðast sem svæðisstjóri hjá Mowi í mið Noregi.

„Við erum sérstaklega ánægð að fá John Gunnar til liðs við okkur. Reynsla hans og þekking mun koma félaginu að miklu gangi í þeirri uppbyggingu sem er framundan “ segir Stein Ove Tveiten forstjóri Arctic Fish.

„Ísland er tiltölulega ný fiskeldisþjóð með sífellt meiri framleiðslu og mikil vaxtartækifæri. Arctic Fish hefur góðan grunn, stjórnar allri virðiskeðjunni sjálft, frá seiðum í sölu á fullunnri vöru sem felur í sér gríðarleg tækifæri.  Helsta verkefnið verður að þróa starfsemina áfram og tryggja bestu mögulegu vinnubrögð með dýravelferð og sjálfbærni að leiðarljósi. Ég er fullur tilhlökkunar að taka þátt í þeirri vegferð sem framundan er,“ segir John Gunnar Grindskar.

DEILA