Jón Páll: eigum að nýta náttúruna á sjálfbæran hátt

Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri í Bolungavík.

„Það er okkar hlutverk að nýta náttúruna á sjálfbæran hátt til lengri tíma litið,“ segir Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri í Bolungavík í viðtali við Fiskifréttir á fimmtudaginn. Hann gagnrýnir óvægna umræðu um laxeldi á Vestfjörðum.

Viðtalið er tekið í tilefni af því að laxasláturhúsið Drimla í Bolungavík var vígt á laugardaginn. Jón Páll segir að þrátt fyrir skakkaföll vegna strokulaxa og lúsapestar horfi Bolvíkingar fram á veginn. Þeir hafi enn hafa fulla trú á að fiskeldi verði sú stoð í atvinnulífi Vestfjarða sem því sé ætlað. Gert hefur verið ráð fyrir um þrjátíu störfum í nýju laxavinnslunni.

Ætla að láta þetta ganga

„Þetta hefur allt áhrif og okkur þykir mjög leiðinlegt að þetta skuli hafa gerst,“ segir Jón Páll. Fiskeldið á Vestfjörðum sé hins vegar ekki hagsmunamál Vestfirðinga einna.

„Þetta eru sameiginlegir hagsmunir okkar allra; samfélagsins alls og skattgreiðenda – hvort sem þeir eru í Bolungarvík eða annars staðar á Íslandi – og fyrirtækisins að búa til verðmæti. Þegar verðmæti fara í súginn þá er það alltaf mjög leiðinlegt,“ segir bæjarstjórinn. Laxavinnslan Drimla sé hins vegar langtíma verkefni.

„Drimla er eitt af tannhjólunum í Bolungarvík og  við sem stýrum sveitarfélaginu og þeir sem stýra Arctic Fish og laxavinnslunni, eru sammála um að láta þetta ganga til lengri tíma lítið,“ segir Jón Páll.

Lifað á náttúrunni í þúsund ár

Umræðan í kjölfar fyrrgreindra atburða segir Jón Páll hafa verið óvængaamma og verið heimamönnum þungbær.

„Meirihlutinn er auðvitað frekar sár og svekktur út í það hvernig fólk talar um okkur. Ef ég tala fyrir hönd samfélagsins í Bolungarvík þá erum við búin að lifa á sjónum og landinu í þúsund ár, frá því að Þuríður sundafyllir kom fyrst,“ segir Jón Páll og vísar þar til Þuríðar sem kom frá Noregi á tíundu öld og nam land í Bolungarvík. Viðurnefni sitt fékk Þuríður vegna þess að hún var talin hafa með særingum fyllt öll sund í heimabyggð sinni í Hálogalandi í Norður-Noregi af fiski eftir að mikið hallæri hafði ríkt.

„Að segja að við berum ekki virðingu fyrir náttúrunni er mjög særandi fyrir okkur. Við lifum á náttúrunni.  Við erum ekki hérna til að horfa á náttúruna. Það er okkar hlutverk að nýta náttúruna á sjálfbæran hátt til lengri tíma litið. Og það ætlum við að gera,“ segir Jón Páll.

Allar tölur grænar

 Jón Páll á að loks sé kominn langþráður uppgangur á Vestfjörðum eftir langt skeið vonleysis og hnignunar.

Bolvíkingar og aðrir á svæðinu binda vonir við nýju laxavinnsluna Drimlu sem er í eigu Arctic Fish. Mynd/Baldur Smári Einarsson
Bolvíkingar og aðrir á svæðinu binda vonir við nýju laxavinnsluna Drimlu sem er í eigu Arctic Fish. Mynd/Baldur Smári Einarsson

„Áratug eftir áratug horfði maður á foreldra sína tala saman við eldhúsborðið og framtíðarsýnin var að vonandi yrði næsta ár ekki eins slæmt og þetta ár, að vonandi myndi fólkinu ekki fækka eins mikið á næsta ári eins og á þessu ári,“ segir Jón Páll.

„Núna hef ég hins vegar þau forréttindi að upplifa tíma á Vestfjörðum og í Bolungarvík þar sem allar tölur eru grænar,“ bætir bæjarstjórinn við. Rekstur sveitarfélaganna gangi betur, störfum fjölgi, íbúðarhúsnæði sé byggt, fyrirtæki séu fleiri og fjölbreyttari og menningarlífið blómstri. „Það er bara allt á uppleið.“

Persónulegar árásir

Í viðtalinu segir Jón Páll að þann storm sem sjókvíaeldið sé í núna muni lægja.

„Við verðum að halda áfram. Þetta sem er að gerast akkúrat núna þýðir ekki að við séum umhverfissóðar eða vitum ekkert hvað við erum að gera,“ segir Jón Páll sem kveður talað niður til Vestfirðinga.

„Við upplifum það þannig og okkur finnst það leiðinlegt. Umræðan er það hatrömm og hörð að ég hef upplifað að fólk er farið að veigra sér við að taka þátt í henni,“ segir Jón Páll. „Ég hef lent í því sjálfur að það er ráðist að mér persónulega og gert lítið úr mér á opinberum vettvangi af því að ég er í Bolungarvík og af því að ég er bæjarstjóri og af því að ég er talinn stuðningsmaður fiskeldis.“

Jón Páll telur að ef umræðan fái ekki að fara eðlilega fram geti það aldrei endað vel. „Ég trúi því ekki að það sé vilji þeirra sem eru á móti fiskeldi að drepa umræðu og haga umræðunni þannig að venjulegt fólk þori ekki að segja skoðanir sínar.“

þúsund manna fjölgun framundan

Að sögn Jóns fylgja fiskeldinu á Vestfjörðum mörg hundruð bein og óbein störf. „Afleiddu störfin eru líka mjög stór þáttur,“ undirstrikar hann. Á húsnæðisáætlunum sveitarfélaganna sjáist hvað þau séu að gera ráð fyrir í fólksfjölgun á svæðinu. Á norðanverðum Vestfjörðum sé reiknað með fjölgun upp á í kringum eitt þúsund manns.

„Sveitarfélögin eru að byggja upp sín kerfi og innviði í takt við þetta. Það er bara mjög skýrt af okkar hálfu. Og það er enginn bilbugur á okkur. Við erum ekki hrædd,“ segir bæjarstjórinn í Bolungarvík að lokum í viðtalinu í Fiskifréttum.

 

DEILA