BOTNSVIRKJUN Í DÝRAFIRÐI

Landeigendur Botns og Dranga áforma byggingu og rekstur allt að 5 MW rennslisvirkjunar með mögulegri dægurmiðlun, sem nýtir hluta rennslis Botnsár og Drangár.

Skipulagsstofnun leitar nú umsagna umsagnaraðila vegna tilkynninga til ákvörðunar um matsskyldu á grundvelli 20. gr. laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana.

Umsagnaraðilar sem leitað er álits hjá eru að jafnaði leyfisveitendur og stofnanir sem ýmist hafa lögbundnu hlutverki að gegna á sviði sem varðar fyrirhugaða framkvæmd eða búa yfir sérfræðiþekkingu á sviði sem varðar fyrirhugaða framkvæmd. Misjafnt er hvaða aðrir aðilar eru umsagnaraðilar og fer það eftir eðli og staðsetningu framkvæmdar hverju sinni.


Áætlað er að inntaksmannvirki og aðveituskurðir verði staðsett í allt að 450 m h.y.s. í dalbotninum og þaðan liggi niðurgrafin þrýstipípa sunnan árinnar í landi Dranga um 3,5 km leið að stöðvarhúsi sem staðsett verði í um 20 m h.y.s., neðan við núverandi skógræktarsvæði. Stærð stöðvarhúss er áætlað allt að 150 m².

Tenging virkjunarinnar yrði með jarðstreng að munna Dýrafjarðarganga. Markmið landeigenda Botns og Dranga er að auka orkuvinnslu á Vestfjörðum á hagkvæman og umhverfisvænan máta.

Framkvæmdaaðilar hafa falið Verkís verkfræðistofu að annast skipulagsmál og matsskyldufyrirspurn vegna virkjunarinnar en ekki er ákveðið hver mun sjá um hönnun mannvirkja og búnaðar.

DEILA