Stefna í ferðaþjónustu: unnið gegn skemmtiferðaskipum

Viking Sky. Mynd: Ísafjarðarhöfn.

Cruise Iceland, samtök hafna á Íslandi sem taka á móti erlendum skemmtiferðaskipum hafa gert alvarlegar athugasemdir við drög að stefnumörkun í ferðaþjónustu. Sjö starfshópar vinna að stefnumörkuninni og eiga þeir að vinna tillögur að aðgerðum í aðgerðaáætlun fyrir ferðaþjónustustefnu til 2030. Hóparnir eiga að skila lokadrögum til stýrihóps fyrir 15. desember n.k. Stýrihópurin samræmir svo tillögunar í heildstæða aðgerðaáætlun og sendir til ráðherra ferðamála Lilju Alfreðsdóttur.

Einn hópurinn tekur fyrir skemmtiferðaskip og í drögum sem send hafa verið út eru ýmsar staðhæfingar og tillögur sem Cruise Iceland gerir athugasemdir við. Segir að ekki hafi verið hugað að aðkomu Cruise Iceland í þessari vinnu og að í drögunum séu fjölda staðhæfinga sem eru efnislega rangar og auðvelt hefði verið að leiðrétta ef samtökin hefðu setið við borðið með starfshópnum.

unnið gegn landsbyggðinni

Stefnan sem birtist í drögunum er sögð vinna að hagsmunum suðvesturhornsins á kostnað landsbyggðarinnar og staðhæft að það sé andstætt hagsmunum fólksins á landinu að þrengja sérstaklega að ferðaþjónustu skemmtiferðaskipa.

Cruise Iceland geldur varhug við hugmyndum um álagsstýringarkerfi sem beinist gegn farþegum með skemmtiferðaskipum og mótmælir því harðlega „að koma þurfi á álagsstýringu af hálfu hins opinbera á komur skemmtiferðaskipa sérstaklega til að hámarka upplifun gesta í heild sinni, eins og talað er um í drögunum.“ Því er enn fremur hafnað að nokkur fótur sé fyrir þeirri staðhæfingu að farþegar á skemmtiferðaskipum skapi álagstoppa. Samtökin benda á að álagið hljóti frekar að stafa af þeim u.þ.b. 86% ferðamanna sem koma landsins með flugi fremur en þeim 14% sem koma með skemmtiferðaskipi í skipulagðar ferðir.

Cruise Iceland eru ekki á móti álagsstýringarkerfi, segir í umsögn þeirra, svo lengi sem það er almenns eðlis og taki til allra ferðamanna, alls landsins, alls ársins og allra þátta ferðaþjónustunnar en sé ekki sérstaklega beint gegn hagsmunum félaga innan samtakanna.

Þá er staðhæft í drögum starfshópsins að skemmtiferðaskip séu í samkeppni við innlenda ferðaþjónustu og að þau greiði enga skatta til ríkisins ferðaþjónustu. Cruise Iceland mótmælir þessum staðhæfingum. Um helmingur farþega skemmtiferðaskipa séu skiptifarþegar sem komi fljúgandi til landsins og fari með flugi. Þeir kaupi gistingu og aðra þjónustu í landi og er áætlað að gistinætur þeirra á hótelum séu 200 – 230 þúsund á þeim fjórum mánuðum sem siglingarnar standa yfir. Skipin greiða um hálfan milljarða króna til ríkisins í vitagjald. Hins vegar heyri áhafnir erlendra skemmtiferðaskipa að sjálfsögðu ekkert frekar undir íslenska vinnulöggjöf eða kjarasamninga frekar en áhafnir erlendra flugfélaga.

55 milljarða kr tekjur og 60% á landsbyggðinni

Cruise Iceland bendir á að farþegar skemmtiferðaskipanna og viðskiptin þeim tengdum dreifist meira um landið en af annarri ferðaþjónustu. Alls hafi 31 höfn tekið á móti skemmtiferðaskipum síðastliðið sumar og fæstar þeirra eru á suðvesturhorninu. Tekjur af skemmtiferðaskipunum séu stór hluti tekna hafnarsjóðanna sem efli getu þeirra til að sinna lögbundnu hlutverki sínu. Tekjurnar í ár af skipakomunum eru áætlaðar um 4 milljarðar króna.

Beinar tekjur landsbyggðarinnar af komum skemmtiferðaskipa eru verulegar. Í umsögn Cruise Iceland segir að áætlað er að tekjur Akureyrar og nágrennis af komu skemmtiferðaskipa í sumar séu um 10 milljarðar í allt. Heildartekjur samfélagsins eru áætlaðar allt að 55 milljarðar í ár sem dreifast 60% á landsbyggðina og 40% á höfuðborgarsvæðið.

DEILA