Stúdentagarðar Ísafirði: opið hús  1. desember

Stúdentagarður Háskólaseturs Vestfjarða, fyrra húsið. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Framkvæmdir eru á lokastigi við seinna hús Stúdentagarða Háskólaseturs Vestfjarða á Ísafirði og hefur verið ákveðið að hafa vígslu þann 1. desember næstkomandi. Hefst hún kl 14 og stendur til kl 15 en þá verður opið hús til kl 18 fyrir gesti og gangandi.

Húsin eru tvö með 20 íbúðum hvort og var fyrra húsið tekið í notkun nú í haust.

Halldór Halldórsson, formaður stjórnar sjálfseignarstofnunarinnar Stúdentagarða Háskólaseturs Vestfjarða segir að verkið hafi gengið vel. Framkvæmdir hófust ekki fyrr en í febrúar á þessu áriog eru á lokastigi. Jóhann Birkir Helgason er byggingarstjóri og Ágúst Gíslason hefur komið að framkvæmdinni bæði í upphafi og svo aftur á síðari stigum. Aðalverktaki kemur frá Eistlandi og heitir Seve.

Byggingarkostnaður er um 1,2 milljarðar króna. Stofnframlög fengust frá ríkinu 18% af kostnaði og Ísafjarðarbæ 12% auk þess sem sérstakt byggðaframlag 189 m.kr. var veitt. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun lánar það sem upp á vantar til langs tíma og gert er ráð fyrir að húsleiga standi undir láninu og rekstri húsanna.

Halldór segir að nemendur við Háskólasetrið munu ekki koma til leigu á íbúðum í seinna húsinu fyrr en næsta haust og verið sé að skoða  skammtímaleigu undir aðra starfsemi þangað til.

Í stjórn sjálfseignarstofnunarinnar eru auk Halldórs, Sigríður Kristjánsdóttir og  Hildur Dagbjört Arnardóttir. Varamaður er Karl Ásgeirsson.

Mynd: Halldór Halldórsson.

DEILA