Strandabyggð: meirihlutinn kallar eftir vinnufriði

Frá Hólmavík. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Álit innviðaráðuneytisins á umkvörtunarefnum varðandi stjórnsýslu Strandabyggðar var rætt á fundi sveitarstjórnar Strandabyggðar á þriðjudaginn.

Viðbrögð meirihlutans voru skýrð með langri bókun. Þar segir m.a. að hluti af umkvörtunarefnunum sé þrálát beiðni bæði fyrrverandi sveitarstjórnar og minnihluta um að taka mál sem tilheyrir fortíðinni, til umfjöllunar á fundi núverandi sveitarstjórnar. Oddviti hafi þrívegis boðið fundi með sveitarstjórn til þess að ræða þau atriði en því hafi verið hafnað. Þá hafi fyrrverandi fulltrúar í sveitarstjórn hafnað sáttafundi og því sé enginn sáttavilji til staðar af þeirra hálfu.

Niðurlag bókunarinnar er að meirihlutinn kallar eftir vinnufriði og samstöðu um þau mál sem snerta íbúa Strandabyggðar mestu. „Einnig kallar meirihlutinn eftir viðurkenningu á lýðræðislegri niðurstöðu síðustu sveitarstjórnarkosninga, þar sem Strandabandalagið vann sigur og hefur sterkan meirihluta. Það er vanvirða við lýðræðið, við þá íbúa sem nýttu atkvæðisrétt sinn og við þá íbúa sem vilja vinnufrið og samstöðu sveitarstjórnar, að geta ekki sætt sig við orðin hlut og viðhalda þess í stað sífelldri spennu í samfélaginu og samskiptum þeirra lista sem skipa sveitarstjórn Strandabyggðar. Nú er mál að linni, því sveitarfélagið þarf á því að halda að báðir listar vinni saman að framþróun og vexti samfélagsins.“

Minni hlutinn A -listinn svaraði með eftirfarandi bókun:

„Nú liggur fyrir afar skýrt álit Innviðaráðuneytis á stjórnsýslu Strandabyggðar. Þar kemur fram að oddviti með stuðningi sveitarstjórnarmanna T-lista hefur margoft brotið sveitarstjórnarlög. A-listinn hvetur sveitarstjórnarmenn T-lista til að lesa álitið vandlega og hvetur oddvita að breyta stjórnunarháttum sínum í samræmi við álit ráðuneytisins.“

Tengill á fundargerð sveitarstjórnar:

http://www.strandabyggd.is/stjornsysla/sveitastjorn/Sveitarstjornarfundur_1352_i_Strandabyggd_14november_2023/

DEILA