Menntastefna Vestfjarða: hækka menntunarstig

Á vegum Vestfjarðastofu hafa verið unnin drög að menntastefnu fyrir Vestfirði. Gagna var aflað á síðasta ári. Haldinn var stór fundur með hagaðilum þar sem hugmyndin um sameiginlega menntastefnu fyrir svæðið var kynnt og kallað eftir viðbrögðum. Í framhaldi af því fóru fram viðtöl við hagaðila á hverju svæði fyrir sig um stöðu fræðslumála og framtíðarsýn þeirra á því sviði, auk þess voru kannanir framkvæmdar
meðal skólafólks og fræðsluaðila. Þá voru haldnir opnir íbúafundir á Patreksfirði, Hólmavík og Ísafirði og viðtöl tekin við aðila úr atvinnulífinu. Ungmennaþing var haldið í Bjarnarfirði í nóvember.

Sett eru fram sex markmið og þeirra efst er að hækka menntunarstig á Vestfjörðum með bættu aðgengi að hágæða menntun fyrir alla samfélagshópa. Um það segir í drögunum að aukin menntun sé forsenda nýsköpunar og vaxtar í samfélaginu, hún efli og bæti lífsgæði og afkomu íbúa. Stefnt verði að því að auka námsframboð í staðnámi og fjarnámi fyrir ólíka hópa.

Í öðru lagi verði komið á fót lærdómssamfélagi í fjórðungnum með aukinni samvinnu sveitarfélaga, fræðsluaðila og atvinnulífs. Þá er lögð áhersla á nýsköpun, fjölmenningarsamfélag, skapandi greinar og gott námsumhverfi.

Fræðslunefnd og bæjarráð Ísafjarðarbæjar hafa tekið drögin fyrir og í umsögn þeirra er útgáfu Menntastefnu Vestfjarða fagnað.

„Til þess að ná fram markmiðum er lagt til að fylgja hugmyndum stefnunnar, leita allra leiða til að hækka menntunarstig og kalla eftir betra aðgengi að vönduðu framhaldsnámi sem hefur verið kallað eftir í lengri tíma. Ákjósanlegast væri að stefnan væri með mælanleg árangursviðmið til þess að fara eftir það mundi styrkja vægi hennar og fylgni.“

Þá segir í umsögninni að Menntastefna Vestfjarða muni vonandi nýtast í vinnu við aðrar stefnugerðir og vera leiðarljós í skólasamfélaginu í Ísafjarðarbæ.

DEILA