Bolungavík: tekjur aukast um 17%

Frá Bolungavíkurhöfn. Mynd: Bolungavíkurhöfn.

Rekstrartekjur Bolungavíkurkaupstaðar verða á næsta ári 2.025 m.kr. samkvæmt fjárhagsáætlun 2024 sem var lögð fram í gær í bæjarstjórn. Er það aukning tekna um 17% frá því sem áætlað er að tekjurnar verði á þessu ári, sem er 1.747 m.kr.

Skatttekjur munu aukast um 15% og verða 1.387 m.kr. Er aukningin 187 m.kr. frá þessu ári þrátt fyrir 20% lækkun fasteignaskatts af íbúðarhúsnæði. Útsvar er áætlað að skili 843 m.kr., fasteignaskattur og lóðarleiga 138 m.kr og framlag úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga verður 406 m.kr. skv. áætluninni.

Þjónustutekjur eru áætlaðar verða 368 m.kr. á næsta ári samanborið við 309 m.kr. á þessu ári.

Af útgjöldum munu laun og tengd gjöld hækka um 209 m.kr. milli ára. Að sögn Jóns Páls Hreinssonar, bæjarstjóra er það mest vegna áhrifa farsældarlaganna þar sem lögð er áhersla á samþættingu þjónustu í þágu barna. Sagði hann að bæjarstjórninni væri áfram um að vinna eftir þeim lögum.

Fjárhagsáætlunin gerir ráð fyrir 35 m.kr. rekstrarafgangi á næsta ári. Á þessu ári stefnir í 90 m.kr. afgang af rekstrinum.

Bæjarstjórnin vísaði fjárhagsáætluninni til síðari umræðu og afgreiðslu sem fer fram fyrir áramótin.

DEILA