Strandabyggð: vonandi skapast vinnufriður

Þorgeir Pálsson, sveitarstjóri.

Þorgeir Pálsson, sveitarstjóri segir fyrst og fremst ánægjulegt að ráðuneytið hafi loksins afgreitt þessi erindi og að þessi mál séu þar með frá.

Innviðaráðuneytið segir í áliti sínu að sveitarstjórnarfulltrúar hafi ríkan rétt til þess að koma málefnum á dagskrá og að málfrelsi sveitarstjórnarfulltrúa og réttur þeirra til að leggja fram tillögur á sveitarstjórnarfundi eru grundvallarréttindi þeirra. Telur ráðuneytið að vanræksla sveitarfélagsins við að gæta að umræddum grundvallarréttindum sveitarstjórnarfulltrúa sé verulega ámælisverð. Sveitarstjórnarmenn úr minnihluta sveitarstjórnar Strandabyggðar höfðu kvartað til ráðuneytisins.

„Við munum áfram byggja okkar stjórnsýslu á þeim venjum sem hafa gilt í sveitarstjórn Strandabyggðar, sem og ráðleggingum lögfræðinga og þeim ábendingum sem komu frá ráðuneytinu.  Að öðru leyti er þessu máli lokið og vonandi skapast nú vinnufriður í sveitarfélaginu og innan sveitarstjórnar.“

ávirðingar falli undir dómstóla

Þá höfðu fimm fulltrúar úr sveitarstjórninni sem sat 2018 – 2022 kvartað til ráðuneytisins yfir því að hafa ekki fengið svör við erindi sínu til núverandi sveitarstjórnar þar sem þeir vildu fá skýringar frá núverandi oddvita sveitarfélagsins sem hafi haldið því fram opinberlega að þáverandi sveitarstjórn hafi tekið ákvarðanir sem stangist á við sveitarstjórnarlög og siðareglur Strandabyggðar. Í því samhengi hafi verið nefndar styrkúthlutanir til safna og fyrirtækja sem tengjast kjörnum fulltrúum og að eignir sveitarfélagsins hafi verið gefnar aðilum tengdum kjörnum fulltrúum.

Telur ráðuneytið í áliti sínu að sveitarfélaginu beri að svara eindinu en að öðru leyti falli það undir undir dómstóla að greiða úr ágreiningi um hvort opinber ummæli teljist vera ólögmæt og ærumeiðandi.

Um þetta segir Þorgeir: „Það er ljóst af þessu áliti, að ráðuneytið telur, líkt og við höfum alltaf sagt, að málefni fyrrverandi sveitarstjórnar eiga ekki heima á borði núverandi sveitarstjórnar.  Ráðuneytið vísar því máli frá. Ráðuneytið telur að „að mál þetta sé ekki  þess eðlis að til greina komi að sveitarfélagið þurfi að taka ákvörðun í máli, eða að fella þurfi úr gildi ákvörðun sveitarfélagsins“ eins og segir orðrétt í álitinu.“

DEILA