Mugison afþakkaði tilnefningu sem bæjarlistamaður Ísafjarðarbæjar árið 2023

Ekkert verður af útnefningu bæjarlistamanns Ísafjarðarbæjar árið 2023 þar sem listamaðurinn sem hlaut titilinn hefur afþakkað hann.

Á 169. fundi menningarmálanefndar sem haldinn var 18. september 2023 tók menningarmálanefnd ákvörðun um útnefningu bæjarlistamanns 2023, út frá tilnefningum sem bárust frá bæjarbúum.

Haft var samband við viðkomandi listamann í kjölfarið til að tilkynna um ákvörðun nefndarinnar. Ráðgert var að útnefning færi fram með viðhöfn á Veturnóttum í lok október en skömmu áður en að því kom lét listamaðurinn vita að hann vildi afþakka útnefninguna.

Menningarmálanefnd tók þá ákvörðun um að ekkert yrði af útnefningu þetta árið og samþykkti á 170. fundi sínum þann 13. nóvember að óska eftir því við bæjarstjórn að áætlaðir fjármunir vegna verðlaunafjár bæjarlistamanns 2023, að fjárhæð kr. 200.000, verði nýttir til frekari jólaskreytinga í sveitarfélaginu, í stað þess að falla niður.

Ekki hefur verið uppgefið hver það var sem hafnaði tilnefningunni.

Uppfært kl 17:20. Mugison upplýsti fyrr í dag að hann hefði afþakkað tilnefninguna. Ástæðan er að hann verður að spila á tónleikum um allt land á þeim tíma sem hann var beðinn um að koma og taka á móti heiðrinum. Ekki vildi hann vera með vesen og biðja um að færa dagsetninguna en segir jafnfram að honum þyki mjög vænt um að ísfirðingar hafi hugsað svona hlýlega til sín.

DEILA