Innviðaráðuneyti: verulega ámælisverð framganga Strandabyggðar

Þorgeir Pálsson er oddviti og sveitarstjóri í Strandabyggð.

Innviðaráðuneytið hefur komist að þeirri niðurstöðu að stjórnsýsla Strandabyggðar gagnvart grundvallarréttindum sveitarstjórnarfulltrúa um málfrelsi og tillögufrelsi sé veruega ámælisverð.

Á föstudaginn gaf ráðuneytið út álit sitt á umkvörtunarefnum sem því höfðu borist frá fulltrúum í minnihluta sveitarstjórnar. Oddviti, sem jafnframt er sveitarstjóri, hafði hafnað því að taka mál á dagskrá sveitarstjórnar, einnig hafnað því að taka tillögu til afgreiðslu og loks tekið upp þá framkvæmd að flokka mál á dagskrá sveitarstjórnar í þrjá flokka, til afgreiðslu, til umræðu og til kynningar, og takmarkað eða bannað umræður um önnur mál en þau sem flokkuð eru til umræðu. Var í kvörtuninni vísað í ákveðin tilvik henni til stuðnings.

Um rétt sveitarstjórnarmanna til að setja mál á dagskrá segir í áliti ráðuneytisins að það sé hvorki framkvæmdastjóra né oddvita að hafna því að setja mál á dagskrá sem sveitarstjórnarmaður réttilega biður hann um að hafa þar með. Sveitarstjórnin taki í upphafi hvers fundar ákvörðun um dagskrána og getur fallist á útsenda dagskrá eða breytt henni.

„Af gögnum málsins má ráða að oddviti sveitarfélagsins hafi ítrekað hafnað beiðni sveitarstjórnarfulltrúa að setja málefni á dagskrártillögu sem send var með fundarboði, jafnvel þótt dagskrártillagan hafi borist fyrir þann frest sem mælt er fyrir um í samþykktum um stjórn og fundarsköp sveitarfélagsins. Telur ráðuneytið ljóst að sú framkvæmd hafi ekki verið í samræmi við 27. gr sveitarstjórnarlaga.“

Um málfrelsi sveitarstjórnarmanna segir ráðuneytið að um það sé mælt fyrir í samþykkt um stjórn sveitarfélagsins og einnig í sveitarstjórnarlögum. Almenna reglan er heimlt til þess að tala tvisvar við hverja umræðu máls. Um tillögurétt gildi sú grundvallarregla að sveitarstjórnarmaður á rétt á að tekið verði á dagskrá sveitarstjórnarfundar hvert það málefni sem sérstaklega varðar hagsmuni sveitarfélagsins eða verkefni þess og geti auk þess borið fram breytingartillögu, viðaukatillögu eða frestunartillögu við
hvert það mál sem er til umræðu á fundi.

Ráðuneytið segir að oddvita sem fundarstjóra sé ekki heimilt að taka ákvarðanir sem eru í andstöðu við reglur um fundarsköp sveitarfélagsins eða sveitarstjórnarlög, svo sem að banna umræður um tiltekna dagskrárliði eða neita sveitarstjórnarmönnum að leggja fram tillögur varðandi afgreiðslu einstakra mála.

„Að mati ráðuneytisins verður ekki séð að ákvarðanir oddvita um að takmarka alfarið málfrelsi og/eða tillögurétt kjörinna fulltrúa í tilteknum málum á dagskrá sveitarstjórnarfundar hafi átt sér stoð í reglum sveitarfélagsins um fundarsköp á grundvelli þeirra sjónarmiða að einfalda og stytta framkvæmd funda.“ Þá sé það ekki heldur í samræmi við ákvæði 26. gr. sveitarstjórnarlaga.

Í skýringum meirihluta sveitarfélagsins til Innviðaráðuneytisins sagði um þessi atriði að í samþykkt um stjórn og fundarsköp sveitarfélagsins semji framkvæmdastjóri dagskrá sveitarstjórnarfunda í samráði við oddvita og að sveitarstjórnarmanni sé skylt að lúta valdi oddvita í hvívetna varðandi það að gætt sé góðrar reglu.

Samandregin niðurstaða ráðuneytisins er sú að það „leggur áherslu á ríkan rétt sveitarstjórnarfulltrúa samkvæmt 1. mgr. 27. gr. sveitarstjórnarlaga til að koma málefnum á dagskrá og að málfrelsi sveitarstjórnarfulltrúa og réttur þeirra til að leggja fram tillögur á sveitarstjórnarfundi eru grundvallarréttindi þeirra. Telur ráðuneytið því að vanræksla sveitarfélagsins við að gæta að umræddum grundvallarréttindum sveitarstjórnarfulltrúa sé verulega ámælisverð.“

DEILA