Synjun Ísafjarðarbæjar um gögn felld úr gildi

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál felldi í fyrradag úr gildi synjun Ísafjarðarbæjar á beiðni ritstjóra Bæjarins besta um aðgang að skjölunum „Framkvæmdaáætlun 2023-2033. Heild“ og „Minnisblað framkvæmdaáætlun með fjárhagsáætlun 2.11.22“ og lagði fyrir Ísafjarðarbæ að taka beiðnina til nýrrar meðferðar og afgreiðslu.

Þann 30. nóvember 2022 var synjun Ísafjarðarbæjar á afhendingu gagna varðandi fjárhagsáætlun 2023 kærð til úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Synjað var tillögu að fjárhagsáætlun 2023 sem var til fyrri umræðu og framkvæmdaáætlun fyrir árin 2023-2033 sem einnig var til fyrri umræðu 3. nóvember 2022.

Ísafjarðarbær bar því við að um væri að ræða vinnugögn sem væru þá undanskilin upplýsingarétti. Af hálfu Bæjarins besta var það talið algerlega óásættanlegt að bæjarstjóri geti lokað fyrir aðgang almennings og fjölmiðla að þessum áætlunum og kæft opinbera umræðu um mikilvægustu tillögur sveitarstjórnar á hverju ári með því að skilgreina tillögurnar sem vinnugögn. Á það var bent að bæði Reykjavíkurborg og Akureyrabær hafi birt umræddar áætlanir þegar við fyrri umræðu og gat hver sem er opnað þær og kynnt sér innihald þeirra samdægurs.

Í umsögn Ísafjarðarbæjar var þess krafist að málinu yrði vísað frá með vísan til þess ekki séu lengur lögvarðir hagsmunir til birtingu gagnanna þar sem gögnin séu úrelt og lokagögn hafi verið birt með fundargerð bæjarstjórnar 1. desember 2022.

Úrskurðarnefndin hafnaði frávísunarkröfunni og benti á að ekkert þeirra gagna sem Ísafjarðarbær lagði fram í málinu væri aðgengilegt almenningi í óbreyttri mynd á vef sveitarfélagsins. Þá er eitt þeirra ekki að finna á vef sveitarfélagsins.

Ísafjarðarbær lagði fram sex skjöl sem hann taldi að erindið ætti við. Úrskurðarnefndin taldi ekki ástæðu til þess að véfengja upplýsingar Ísafjarðarbæjar um að gögnin hafi verið unnin af starfsmönnum sveitarfélagsins til eigin afnota þess og þau ekki afhent öðrum, en það jafngilti ekki því að meina um aðgang að þeim.

Varðandi fjögur skjöl af sex taldi nefndin að í þeim væru ekki mikilvægar upplýsingar sem ekki kæmu fram annars staðar í birtum skjölum og féllst á synjun Ísafjarðarbæjar.

En í tveimur skjölum , í minnisblaði með framkvæmdaáætlun Ísafjarðarbæjar og framkvæmdaáætluninni, koma á hinn bóginn fram upplýsingar sem er ekki að finna í öðrum fyrirliggjandi gögnum og felldi nefndin úr gildi synjun Ísafjarðarbæjar um afhendingu skjalanna. Hafnaði úrskurðarnefndin mótbárum Ísafjarðarbæjar sem hélt því fram að upplýsingar um fyrirhugaðar ráðstafanir og verkefni gerðu það að verkum að þau yrðu þýðingarlaus eða skiluðu ekki tilætluðum árangri væru þau á almannavitorði.

Úrskurðarnefndin segir að líta verði til þeirra markmiða að styrkja aðhald fjölmiðla að stjórnvöldum og möguleika fjölmiðla til að miðla upplýsingum um opinber málefni. „Í þessu máli liggur fyrir að kærandi er ritstjóri fjölmiðils og hefur nefndin lagt til grundvallar að fjölmiðlar hafi að jafnaði sérstaka hagsmuni af aðgangi að gögnum, sbr. úrskurði nr. 1127/2023 og 1138/2023.“

Þá gerir nefndin athugasemd við málsmeðferð Ísafjarðarbæjar og að hún hafi ekki verið fullnægjandi.

„Þá var rökstuðningur fyrir ákvörðuninni ekki veittur fyrr en kærandi leitaði eftir því og var honum ekki leiðbeint um kæruheimild til úrskurðarnefndar um upplýsingalaga. Var ákvörðunin að þessu leyti ekki í samræmi við 19. gr. upplýsingalaga. Úrskurðarnefndin beinir því til Ísafjarðarbæjar að gæta framvegis að þessum atriðum.“

DEILA