Frv um eldisgjald dagaði upp á Alþingi

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþm.

Vesturbyggð tapaði máli sínu í Héraðsdómi Vestfjarða í gær gegn Arnarlax um innheimtu á aflagjaldi þar sem lagastoð skorti fyrir innheimtu aflagjalds af eldisfiski. Segir í dómnum að aflagjald leggist á sjávarafurðir og að eldisfiskur sé það ekki. Því var Arnarlax sýknað.

Innviðaráðherra lagði fram í febrúar 2021 frumvarp til breytinga á hafnalögum þar sem meðal efnisatriða var bætt við lögin ákvæði um eldisgjald. Sagði þar að hafnargjald samkvæmt þessum staflið skuli „standa undir kostnaði við að byggja, reka, viðhalda og endurnýja viðlegumannvirki, aðstöðu við bryggjur og á hafnarbakka, þar sem við á, og almennan rekstrar- og stjórnunarkostnað. Gjöld samkvæmt þessum staflið skulu greidd af þeim sem rækta eldisfiskinn sem fer um höfn hverju sinni.“

Um gjaldtöku á eldisgjald sagði í greinargerð með frumvarpinu að ágreiningur væri „um lögmæti þessarar gjaldtöku þar sem hún nái samkvæmt orðum sínum til afla sjávarútvegsfyrirtækja en ekki til eldisfisks frá fiskeldisfyrirtækjum. Að mati ráðuneytisins er þörf á því að leysa úr þessari réttaróvissu.“

Frumvarpið dagaði upp á Alþingi um vorið og hefur ekki verið lagt fram aftur.

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþm. hefur ítrekað lagt til á Alþingi að laga- og reglugerðaumhverfi sjókvíaeldis verði yfirfarið með hliðsjón af gjaldtöku af fiskeldi þar sem sveitarfélögum verði tryggðar skýrar heimildir til töku gjalda af sjókvíaeldi. Hún segir að von sé á því að frumvarpið verði lagt fram að nýju á næstu vikum.

DEILA