Mast: auglýsir rekstrarleyfi fyrir 1.000 tonna seiðaeldisstöð í Tálknafirði

Matvælastofnun hefur auglýst rekstrarleyfi fyrir 1.000 tonna seiðaeldisstöð Arnarlax að Gileyri í Tálknafirði.

Þar er nú starfrækt seiðaeldi fyrir laxeldi fyrirtækisins á Vestfjörðum. Stöðin á Gileyri var upphaflega byggð árið 1984 fyrir bleikjueldi en árið 2014 var henni breytt í klakstöð og seiðaeldisstöð þar sem alin eru laxaseiði. Framleiðslugeta stöðvarinnar í dag er um 200 tonn hámarkslífmassi, en til stendur að auka framleiðslu stöðvarinnar í um 1000 tonna hámarkslífmassa á ári.

Með stækkuninni verður heildarrúmmál kerja í stöðinni um 19.600 rúmmetrar en er fyrir stækkun um 3.600 rúmmetrar. Gert er ráð fyrir að í framtíðinni verði byggt viðbótarhús fyrir starfsemina sem mun hýsa ker og tanka og einnig mögulega viðbótar geymsla fyrir fóður. Ekki er gert ráð fyrir að bora frekari holur til vatnstöku en fyrir eru fjórar borholur auk vatnstöku úr Gilsá sem rennur um lóðina sem gefa að meðaltali um 300-350 l/s.

Um starfsemi stöðvarinnar gilda lög nr. 71/2008 um fiskeldi og lög nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Arnarlax mun sækja um breytt starfsleyfi til Umhverfisstofnunar með heimild fyrir 1.000 tonna hámarkslífmassa laxaseiða og bleikju í stað 200 tonna ársframleiðslu á laxi og bleikju.

Skipulagsstofnun komst að þeirri niðurstöðu að stækkunin væri ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, Því var framkvæmdin ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Athugasemdir við tillöguna skulu vera skriflegar og sendar Matvælastofnun á mast@mast.is. Frestur til að skila inn athugasemdum er til 6. desember 2023.

DEILA