Bolungarvík á Ströndum

Bolungarvík er láglend og votlend og girt hamraþiljum á báða bóga, Skarðsfjalli (502m) að norðan og utan þess og Bolungarvíkurbjargi að sunnan með Drangsnes yst. Þar hækkar landið upp á Bolungarvíkurheiði.

Drangsvík gengur inn í Drangsnes og nöfnin eru dregin af berggangi í miðri víkinni. Næsta nes er allgrösugt og kallast Naust, enda var þar lending bæjarins í Bolungarvík. Þar standa enn þá ummerki um útgerðina, gamalt spil og rústir húsa. Botn fjarðarins er sandfjara, sem hefur myndast eftir ísaldarlok og Bolungarvíkurós, sem er væður á fjöru, rennur um hann miðjan. Kirkjuvað er fornt vað ofan Kirkjuvatns í dalnum. Nafnið bendir til þess, að einhvern tíma hafi verið kirkja í Bolungarvík. Fjöldi skerja er meðfram ströndinni. Þar er mikið af sel og æðarvarp í Stóraskeri og Landskeri.

Fyrrum voru tvö býli í víkinni, Bolungarvíkursel undir Skarðsfjalli (í eyði 1944; sumarbústaður) og Bolungarvík við sunnanverða víkina (í eyði 1949).

Jónas og Reimar Finnbogasynir voru síðustu ábúendur jarðanna. Hlunnindi jarðanna voru einkum rekaviður til smíða og eldiviðar.

Af vefsíðunni is.nat.is

DEILA