Inga Lind svarar ekki

Inga Lind Karlsdóttir, stjórnarmaður í The icelandic wildlife fund svarar ekki óskum Bæjarins besta um rökstuðning fyrir fullyrðingum sínum um laxeldi. Hún hélt því fram í þættinum Ísland í býtið þann 6. október að það væru mest erlendir farandverkamenn sem störfuðu við fiskeldið. Þá hélt hún því fram  að fjöldi starfa sem að einhverju leyti tengdust sjókvíaeldinu væri aðeins 1/3 þess sem væri hjá Domino’s pizzum, fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu.

Athugun Bæjarins besta leiddi í ljós að engir erlendir farandverkamenn vinna hjá eldisfyrirtækjunum á Vestfjörðum, starfsmenn eru um 350 og langflestir eiga lögheimili á Vestfjörðum. Einnig var upplýst að starfsmenn við fiskeldi á landinu væri þrefalt fleiri en hjá Domino´s og fengju auk þess hærri laun. Tekjur af laxeldinu urðu í fyrra um 40 milljarðar króna en tekjur Domino´s um 6 milljarðar kr.

Inga Lind Karlsdóttir var innt eftir rökum sínum fyrir staðhæfingunum sem hún lét falla í þættinum og spurð að því hvort hún stæði enn við þær.

Engin svör hafa borist.

DEILA