Ísafjarðarbær: fasteignaskattur lækkar í 0,54% af íbúðarhúsnæði

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar samþykkti í gær með sjö atkvæðum að fasteignaskattur af íbúðarhúsnæði verði á næsta ári 0,54% og lækkar álagningarhlutfallið lítillega frá yfirstandandi ári sem er 0,56%. Annað var ákveðið óbreytt milli ára og verður fasteignaskattur af B og C byggingum 1,65% og lóðarleiga af íbúðarhúsnæði verður 1,5% af fasteignamati og 3% af öðru húsnæði. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sátu hjá.

Lögðu þeir til að fasteignaskatturinn af íbúðarhúsnæðinu lækkaði enn meira eða í 0,52%. Meirihluti Í listans felldi þá tillögu sem fékk aðeins atkvæði Sjálfstæðisflokksins en bæjarfulltrúar Framsóknarflokksins sátu hjá við þá tillögu.

Fasteignaskatturinn lækkar um 12,2 m.kr. við þessa lækkun álagningarhlutfallsins auk þess sem framlag Jöfnunarsjóðs sveiatrfélaga mun lækka um 6,6 m.kr.

Tekjur af fasteignaskatti og lóðarleigu verður um 680 m.kr. á næsta ári samkvæmt því sem fram kemur í minnisblaði fjármálastjóra til bæjarráðs. Af fasteignagjöldum öllum þ,.e. fasteignaskatti , fráveitu, sorpgjöldum og vatnsgjaldi eru tekjurnar áætlaðar um 966 m.kr. og verða nærri 100 m.kr. hærri en í ár.

DEILA