Starfsgreinasambandið: efla þarf innviði og nýsköpun starfa

Á nýafstöðnu þingi Starfsgreinasambandsins var afgreidd ályktun um byggðamál. Þar segir að góð störf og örugg atvinna séu forsendur mannlífs og byggðar um land allt. Áhrif breyttra atvinnuhátta eru misjöfn um byggðir landsins. Störfum fækkar verulega í landbúnaði og fiskvinnslu ásamt því að færast á færri svæði. Ný störf í ferðaþjónustu og fiskeldi hafa þó stuðlað að jafnvægi og dregið úr áhrifum þessarar þróunar segir í ályktuninni.

Innviðir samfélagsþjónustu, heilbrigðisþjónustu, samgangna, fjarskipta og raforku verða að vera í fremstu röð um land allt og styðja við byggðafestu og atvinnusköpun. Stórefla þarf nýsköpun með áherslu á sjálfbær græn störf og skapandi greinar með það að markmiði að fjölga burðarásum atvinnulífsins.

Áherslur SGS:

  • Innviðafjárfesting verði stórefld og innviðir samfélagsþjónustu, samgangna, fjarskipta og raforku verði í fremstu röð um land allt og styðji við atvinnusköpun.
  • Aðstöðumunur vegna heilbrigðismála er óásættanlegur því skal allur kostnaður þeirra
    sem þurfa að sækja læknisþjónustu utan heimabyggðar sinnar bættur.
  • Hvatar verði innleiddir til að fyrirtæki staðsetji starfsemi, nýsköpun og framleiðslu á
    landsbyggðinni, t.d. með breytingu á tryggingagjaldi, flutningskostnaði eða
    félagslegum tilfærslum eftir svæðum.
  • Bæta þarf samgöngur á milli landshluta.
  • Fjölga þarf ríkisstofnunum á landsbyggðinni.
  • Efla þarf þjónustu við atvinnuleitendur og aðgengi atvinnuleitenda að úrræðum sem
    styrkja stöðu þeirra á vinnumarkaði.
DEILA