Nýstofnaður stuðningshópur krabbameinsfélagsins Sigurvonar fyrir karla með krabbamein hefur hlotið nafnið Karlavon. Var það sú tillaga sem hlaut flest atkvæði í nýafstaðinni nafnasamkeppni sem efnt var til af félaginu. Hópurinn er bæði ætlaður karlmönnum sem eru í krabbameinsferð eða hafa glímt við sjúkdóminn. Þeir hittast á morgun, föstudag, kl 17 í húsnæði Vesturafls á Ísafirði, n.t.t. að Suðurgötu 9. Hópnum var komið á laggirnar í samstarfi við Vesturafl en er nú starfræktur undir styrkri stjórn Davíðs Björns Kjartanssonar sem situr í stjórn Sigurvonar.
Karlavon hittist hálfs mánaðarlega og er leitast við að í hópnum verði jafningastuðningur hafður að leiðarljósi.
Stuðningshópurinn Vinir í von sem verið hefur verið við lýði í hátt í tvo áratugi núna hittist hálfsmánaðarlega á laugardögum. Vinir í von hittast á laugardag kl. 11 á sama stað og Karlavon. Um er að ræða samverustundir bæði með fólk í krabbameinsmeðferð og aðstandendur þeirra.