Hafrannsóknarstofnun andmælir rökstuðningi fyrir hvalveiðibanni

Hvalveiðibátur á siglingu.

Fimmtán alþingismenn hafa flutt á Alþingi frumvarp til laga sem bannar hvalveiðar við Ísland. Hafrannsóknarstofnun hefur sent inn umsögn um frumvarpið. Þar gerir stofnunin alvarlegar athugasemdir við ýmislegt í rökstuðningi flutningsmanna fyrir banninu sem lýst er í greinargerð sem fylgir frumvarpinu.

Segir stofnunin að þar komi fram ýmsar staðhæfingar sem eru ekki í samræmi við núverandi stöðu þekkingar á vistfræðilegum áhrifum hvala og leggur til að þessum kafla í greinargerðinni verði alfarið sleppt eða hann endurskrifaður í betra samræmi við stöðu vísindalegrar þekkingar.

Síðan eru taldar upp fimm staðhæfingar sem fram koma í greinargerðinni og þeim andmælt.

Um þá fyrstu „Hvalir gegna mikilvægu hlutverki í baráttu gegn loftslagsvá sem er ein helsta ógnin við samfélag okkar“ segir í umsögn Hafrannsóknarstofnunar: Ef vistkerfi sjávar eru skoðuð í heild og þar
með þau fjölmörgu ferli sem hafa áhrif á flutning og bindingu kolefnis til lengri og skemmri tíma, þá er fátt sem bendir til annars en að hvalir hafi þar hlutfallslega veigalitlu hlutverki að gegna. Mikil óvissa er um flutning og örlög kolefnis frá hvölum. Klykkt er með því að vísa í nýlegar ritrýndar greinar þessu til stuðnings.

Önnur staðhæfingin er þessi: „Ralph Chami, hagfræðingur og fyrrverandi stjórnandi hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, hefur reiknað út efnahagslegt virði kolefnisbindingar langreyðar á lífstíð sinni og nemur það um 3,3 millj. Bandaríkjadala.“

Um hana segir stofnunin: Við teljum sú heimild sem vísað er til sýni ekki fram á kolefnisbindingu langreiða til lengri tíma og hugsanlegt efnahagslegt virði hennar við Ísland. Grein Ralph Chami er álitsgrein og ekki ritrýnd af sérfræðingum.

Þriðja staðhæfingin sem skotin er niður er „Hvalir framleiða súrefni.“

Hafrannsóknarstofnin segir einfaldlega stutt og laggott: Hvalir framleiða ekki súrefni.

Fjórða staðhæfingin sem tekin er fyrir er alllöng en hún hefst á þessum orðum:

„Með því að kafa niður á sjávarbotn og ferðast um höfin framleiða hvalir næringarrÍk úrgangsský sem styrkja svif og önnur smádýr“ o.s.frv. Þar segir Hafrannsóknarstofnunin að óljóst sé hvaða ferli er vísað í í fyrstu setningu málsgreinarinnar. „Benda má á að bakteríur, að undanskildum blágrænum bakteríum, eru almennt ekki frumframleiðendur og nýta því ekki næringarefni á þann hátt sem frumframleiðendur gera“ og að „Ekki er vitað til þess að rannsóknir hafi verið framkvæmdar við vistfræðilegar aðstæður sambærilegar þeim sem eru við Ísland.“

Loks er það þessi staðhæfing: „Fjölgun hvala styrkir fiskstofna, stóra og smáa, og loks hvalina sjálfa.”

Um hana segir Hafró: „Erfitt er að átta sig á hvað höfundar eiga við hér, en rétt er að benda á að hvalir og önnur sjávarspendýr éta mikið af fiski á ári hverju“ og bætir svo við : „Óljóst er hvaða ferlar gætu leitt til þess að fiskistofnar stækka vegna áhrifa hvala umfram það sem þeir éta á ári hverju.“

Flutningsmenneru frá fjórum þingflokkum, sex frá Pírötum, fjórir frá Flokki fólksins, þrír frá Samfylkingunni og tveir frá Viðreisn.

Enginn þingmanna Norðvesturkjördæmis er meðal flutningsmanna.

DEILA