Gagnagrunnur með handritum og bréfum íslenskra vesturfara hefur verið opnaður á vegum Árnastofnunar á slóðinni vesturheimur.arnastofnun.is.
Þar munu þúsundir mynda af íslenskum handritum, bókum, bréfum og öðrum skjölum í söfnum og einkaeigu í Kanada og Bandaríkjunum koma fyrir sjónir almennings í fyrsta sinn. Þar er einnig hægt að lesa um fólkið sem tengist þeim og leita að stöðum sem koma við sögu handritanna.
Gagnagrunnurinn varð til vegna átaksverkefnis Árnastofnunar sem nefnist Í fótsporum Árna Magnússonar í Vesturheimi og hafði að markmiði að finna handrit og bréf vesturfara á söfnum í Kanada og Bandaríkjunum eða í einkaeigu afkomenda þeirra.
Verkefnastjóri rannsóknarinnar var Katelin Marit Parsons, aðjunkt í íslensku við Háskóla Íslands, og hún er einnig ritstjóri nýja gagnagrunnsins. Katelin lauk doktorsnámi í íslenskum bókmenntum við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands árið 2020. Fimm nemendur við Hugvísindasvið Háskóla Íslands hafa unnið að verkefninu undir stjórn hennar.
Brynjarr Þór Eyjólfsson, Ryan Eric Johnson, og Guðrún Brjánsdóttir við opnun vesturheimur.arnastofnun.is. Þau voru í hópi nemenda sem vann að verkefninu.
Í ár er þess minnst að 150 ár eru liðin síðan fyrsti stóri hópur vesturfara fór vestur um haf frá Íslandi til Kanada og hefur Þjóðræknisfélagið hefur stutt veglega við vinnu að gagnagrunninum auk þess sem stuðningur fékkst frá ríkisstjórn Íslands, Háskólasjóði h/f Eimskipafélags Íslands, Landsbanka Íslands, Eimskipafélagi Íslands, Styrktarsjóði Áslaugar Hafliðadóttur, Manitoba Heritage Grants Program, Icelandic American Society of Minnesota og Íslenskudeild Háskólans í Manitoba.