Ísafjarðarbær: fráveitugjald hækkar um 43% á fermetra

Þingeyri.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar leggur til að fráveitugjald, sem er innheimt af hverjum fermetra húsnæðis, verði hækkað úr 185 kr. upp í 265 kr. eða um 43%. Segir bæjarráð nauðsynlegt að gera þessa breytingu þar sem rangar upplýsingar hafi verið í álagningargögnum. Í október síðastliðnum samþykkti bæjarstjórn nýja gjaldskrá fyrir fráveitur. Í stað þess að innheimtu holræsagjald 0,15% af fasteignamati íbúðarhúsnæðis og 0,30% af fasteignamati annars húsnæðis var ákveðið að innheimtu svonefnt fráveitugjald, 8000 kr. fast gjald af hverri fasteign og 185 kr á hvern fermetra að auki.

Við kerfisbreytinguna var miðað við að innheimta sömu tekjur og hefði verið að óbreyttum álagningarreglum. Nú hafi komið í ljós, segir í minnisblaði fjármálastjóra til bæjarráðs töluvert frávik frá upphaflegum útreikningum. Ástæða þess eru sagðar „rangar upplýsingar í gögnum um heildar fermetra í útreikningum og tvítalning eigna þar sem gjöld voru bæði reiknuð í A flokki og B-C flokki. Ný gjaldskrá gefur heildartekjur kr. 90.998.944,- sem er 31 m.kr. lægri tekjur en áætlað var eða 34% lækkun.“

Til að bregðast við þessu leggur bæjarráðið til hækkun á fermetragjaldinu í 265 kr. sem muni skila tekjum upp á 121,7 m.kr. Gömlu reglurnar hefðu gefið 122 m.kr.

21% lækkun á Ísafirði, um 100% hækkun í þorpunum vestan heiðar

Greining á fyrirhugaðri álagningu leiðir í ljós að tekjur af fráveitugjaldinu lækka á Ísafirði um 21% af íbúðarhúsnæði miðað við tekjur í ár. Á móti þá hækka tekjur af öðru húsnæði á Ísafirði um svipað. Heildartekjur á Ísafirði af fráveitugjaldinu lækka um 7 m.kr. eða um 7,5%.

Öðru máli gegnir um þorpin fjögur. Tekjur af gjaldinu munu aukast af gjaldendum í öllum þorpunum. Í Hnífsdal munu tekjur hækka úr 3,7 m.kr í 5,3 m.kr. sem er 44% hækkun. Fyrir íbúðarhúsnæði sérstaklega munu tekjurnar hækka úr 2,9 m.kr. í 3,9 m.kr. eða um 37%.

Mest verður hækkunin á Þingeyri. Álagningin í ár skilaði 5,8 m.kr. skv. greiningu fjármálastjórans en nýju reglurnar með hækkuðu fermetragjaldi munu skila 11,7 m.kr. Hækkunin er 102%. Álagningin á íbúðarhúsnæði mun hækka meira eða um 108%.

Á Flateyri hækka tekjurnar um 99,4% og verða 10,1 m.kr. og á íbúðarhúsnæði þar verður hækkunin 96%.

Á Suðureyri hækka tekjurnar um 82,5% og verða 8,5 m.kr. Hækkunin á íbúðarhúsnæði verður 89%.

DEILA