OV: vill bora fjórðu holuna á Ísafirði

Orkubú Vestfjarða sótti um heimild til Ísafjarðarbæjar til þess að bora fjórðu rannsóknarholuna í Tungudal sem verði ofan Skógabrautar. Í sumar hafa verið boraðar þrjár holur á þessu svæði og telur Orkubúið að bora þurfi þá fjórðu.

Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri upplýsir að tvær af holunum sem boraðar voru í sumar gefi vísbendingar um að 60 °C heitt geti fundist í fjórðu holunni, með því að bora dýpra með öflugri bor.

Fram kemur í erindi Orkubúsins til Ísafjarðarbæjar að gert sé ráð fyrir að rannsóknarholan verði útbúin þannig að ef hún gefur mikið vatn, þá verði hún rýmd niður til að koma fyrir vinnslufóðringu. Gerist það þá er búið að festa holuna i sessi ásamt nægjanlegu athafnasvædi umhverfis hana. Það mun verða þess valdandi að breyta þarf skipulagi svæðisins og fella út einhverjar íbúðahúsalóðir.

Skipulags- og mannvirkjanefnd Ísafjarðarbæjar ákvað að heimila framkvæmdir vegna borunar rannsóknaholunnar í Tungudal í Skutulsfirði. Mælti nefndin fyrir um að haga þurfi framkvæmdum þannig að umhverfisáhrif verði í lágmarki og frágangur á svæðunum við lok borunar verði með þeim hætti að framkvæmdasvæðið verði ekki í lakara ástandi en það er nú. Nefndin bendir á að ef niðurstöður reynast vera jákvæðar og fara þurfi í frekari uppbyggingu að þá þurfi að fara í frekari skipulagsbreytingar á svæðinu.

DEILA