Á HSV (HVEST) starfar nú aðeins einn íslenskur læknir – hinir eru danskir – þetta þykir ekki nógu gott því fólk vill geta tjáð sig á eigin tungumáli á viðkvæmum stundum þegar mikilvægt er að ekkert misskiljist.
Það hefur lengi ríkt ófremdarástand á HSV (HVEST) en það virðist ekki hafa fengist viðurkennt innan stofnunarinnar og því hefur ástandið óbreytt verið látið damla árum saman á kostnað þeirra sem þangað eiga að geta sótt sér vísa og faglega þjónustu öllu jafnan.
Við sem lesum í ástandið utan frá hljótum nú að beina sjónum okkar að þeim sem þar hafa starfað hvað lengst – í þeim hópi hljóta sökudólgarnir að vera.
Á HSV (HVEST) starfa þó nokkrir hjúkrunarfræðingar sem starfað hafa þar lengi – sumir jafnvel allt frá því að nýja sjúkrahúsið var tekið í notkun. Margir þeirra tilheyra einnig valdaelítu bæjarins sem og nokkrar konur á rannsókn sem einnig hafa starfað þar langa lengi.
Stór heimaríkur hópur á vinnustað sem er farin að líta á hann sem sitt prívat og jafnvel vopn á vegferð sinni til þægilegra lífs getur hæglega eitrað andrúmsloftið á vinnustaðnum svo óbærilegt verður fyrir þá sem standa utan hópsins.
Reikna má með að íslenski læknirinn sé nú yfirlæknir – en það er kona – sá sem var þá á undan henni hættir eftir að hafa skilað af sér þriggja ára ráðningarsamningi – það gerði einnig Gylfi Ólafsson fyrrverandi forstjóri – en hann óskaði ekki eftir að endurnýja sinn ráðningarsamning.
Það lítur samt út fyrir að það hafi ekki legið ljóst fyrir því hann virðist hafa hætt með stuttum fyrirvara þar sem starf hans var að öllum líkindum ekki auglýst laust til umsóknar fyrr en eftir að hann hafði lokið störfum því er stofnunin nú án forstjóra.
Við vitum að það er ekki hefð fyrir því á Íslandi að „pota“ í þá sem tilheyra „betri“ kreðsum þjóðfélagsins – jafnvel þó þeir hafi gerst brotlegir við störf eða séu með öllu vanhæfir til að sinna því sæmilega sem til er ætlast. þeir eru einfaldlega látnir sitja sem fastast og halda áfram að skaða umhverfi sitt nær og fjær og jafnvel hækkaðir í tign svo fegra megi ásýndina og blórabögglar síðan leiddir í þeirra stað fyrir aftökusveit almenningsálitsins.
Ég sem lengi hef verið gagnrýnin á stofnunina auk þess staðið í málaferlum við hana finn andúð sumra mæta mér þegar ég kem þangað – hún er bókstaflega þykk og fólk er snuðrandi í kringum mig eins og hundar í leit að slagsmálum – fólk sem sér ekkert athugavert við þá illu meðferð sem ég hef mátt búa við um langa hríð – það lítur svo á að ég sé að skipta mér að því sem mér kemur ekkert við – þetta sé þeirra „heimsveldi“ og ég aðskotadýr og mér því hollast að láta af afskiptaseminni.
Leiða má að því líkum að þarna sé heilmikil pólitík á ferð þó hún eigi ekkert erindi inn í heilbrigðiskerfið þar sem fólk á 100% að geta treyst á fagleg vinnubrögð og óhlutdrægni – en því miður er því ekki alltaf til að dreifa þar frekar en annars staðar í íslensku velferðarkerfi og stjórnsýslu.
Hér á eftir fer tilvitnun í grein eina eftir Styrmi heitinn Gunnarsson fyrrverandi ritstjóra Morgunblaðsins.
Grein þessi hefst á orðunum – Þetta er ógeðslegt.
Hugmyndafræðileg loftmynd af Sjálfstæðisflokknum hefur lengst af líkst maurabúi þar sem hver eining er á sínum stað og allir hafa hlutverk en eru samt ein heil lífvera.
Morgunblaðið hnitar svo hringi yfir þessari fagurbúnu sveit líkt og klógulur örn reiðubúin að læsa klónum í hvert það rauðleita síli sem vogar sér að reka snjáldrið upp í hina fagurtæru læki þúsundáraríkis Sjálfstæðisflokksins.
Hugsið ykkur alla þá hæfileika sem farið hafa forgörðum, öll þau tækifæri sem við höfum glatað, allt fólkið sem við hröktum úr landi, héldum frá vinnu eða útskúfuðum í félagslegu og menningarlegu tilliti aðeins vegna þess að þar voru ekki félagar í sjálfstæðisflokknum.
Hugsið ykkur allar stöðurnar, embættin og áhrifin sem voru afhent vanhæfum í krafti frændhygli og vinskapar í þágu flokksins.
Tilvitnun lýkur
Þetta er ekki glæsilegur vitnisburður frá manni sem lengi hafði verið innsti koppur í búri Sjálfstæðisflokksins – manni sem þekkti störf flokksins svo vel.
Hér á Ísafirði er afskaplega stutt á milli Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar – þeir eru þar sem fléttaðir saman og skipta öllu bróðurlega með sér eins og gömul hjón sem lengi hafa verið í ástríku hjónabandi.
Það skal tekið fram að ég tel eina íslenska lækninn á HSV (HVEST) ekki eiga neina sök á ástandinu aðra en þá að viðhalda því með aðgerðarleysi í félagi við þá dönsku – sem ég ætla ekki að dæma fremur en þann íslenska. Hún er vel látin af Ísfirðingum og annar engan veginn eftirspurn. Hún er aðflutt og hefur verið hér í nokkur ár – en ég reikna með að þeir dönsku ætli sér ekki að vera hér nema um stundasakir sem nokkurs konar farandverkamenn.
Það hljóta allir að sjá sem vilja að svona getur þetta ekki gengið lengur.
Vestfirðingar flestir gjalda keisaranum það sem keisarans er og eiga því rétt á fumlausri og traustri heilbrigðisþjónustu sem ekki fer í manngreinarálit né pólitískar skotgrafir.
Lifið heil !
Vilhelmína H. Guðmundsdóttir