Þorskafjarðarbrú opnuð: Í dag er ég hamingusöm

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra, Ingibjörg Birna Erlingsdóttir, sveitarstjóri Reykhólahrepps og Bergþóra Þorkelsdóttir, vegamálastjóri klippa á borðann.

Þorskafjarðarbrú var opnuð fyrir umferð í gær að viðstöddu fjölmenni. Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar og Ingibjörg Birna Erlingsdóttir, sveitarstjóri Reykhólahrepps klipptu sameiginlega á borða sem strengdur hafði verið yfir brúna og lýstu því yfir að brúin væri hér með opin fyrir umferð.

Í ávarpi innviðaráðherra kom fram að unnið væri af kappi að ljúka vegagerð um Teigsskóg og stefnt væri að því að opna þann veg fyrir umferð eftir 5 – 6 vikur. Þá verður ekið út Þorskafjörð og svo inn Djúpafjörð og þannig framhjá Hjallahálsi, sem verður í framhaldinu lokað. Á milli slitlagsenda í Þorskafirði og í Djúpafirði eru um 3 km og fengust þau svör hjá Borgarverk ehf sem vinnur verkið að búist er við því að takist að ljúka vegagerðinni innan fárra vikna og setja slitlag á kaflann.

Vegurinn um Teigskóg er hin mesta prýði i landinu. Horft út Þorskafjörð.

Að lokinni opnun brúarinnar fór Jóhanna Ösp Einarsdóttir, formaður Fjórðungsambands Vestfirðinga og íbúi í Gufudal ríðandi yfir brúna ásamt börnum sínum. Jóhanna sagði í samtali við Bæjarins besta að áhrifin af brúnni kæmu strax fram hjá henni, hún hefði í dag í fyrsta skipti á ævinni verið um hálf tíma á leiðinni heim frá vinnu sem væri venjulega 40 -45 mínútur. Hún sagðist hlakka til að keyra veginn út fyrir og sleppa við Hjallaháls. Formaður Fjórðungssambandsins sagði um þennan áfanga að verkefninu væri hvergi nærri lokið, það væru mörg verkefnin sem þyrfti að ná að ljúka svo Vestfirðir stæðu jafnfætis við aðra landshluta í samgöngum. Nefndi hún jarðgöng, Innstrandarveg í Strandabyggð og veg norður í Árneshrepp um Veiðileysiháls sem dæmi um knýjandi framkvæmdir. Jóhanna Ösp nefndi að horfa þyrfti til þeirra verðmæta sem flutt eru eftir vegunum þegar metin er þörfin og framkvæmdum raðað. „Þessi vegferð heldur áfram, en í dag er ég hamingjusöm.“

Jóhanna Ösp Einarsdóttir leggur af stað yfir brúna.

Meðalfjölmarga sem fögnuðu samgöngubótinni yfir Þorskafjörð var Kristinn Bergsveinsson frá Gufudal sem var um áratugaskeið brennandi í áhuga á framfaramálum í sveitinni og fjórðungnum, ekki hvað síst vegamálum. Kristinn er nú 96 ára og var mættur á brúna. Hann fékk covid fyrir 10 dögum en sagðist vera að hrista það af sér.

Kristinn Bergsveinsson frá Gufudal.

fyrsta skrefið í mikilvægum úrbótum

Þórdís Sif Sigurðardóttir, bæjarstjóri í Vesturbyggð segir að brúin sé fyrsta skrefið í mikilvægum úrbótum á samgöngumannvirkjum á sunnanverðum Vestfjörðum og nauðsynlegt að þeim fylgi enn frekari úrbætur á komandi árum.“Við fögnum þessum áfanga en betur má ef duga skal.“

Þórdís Sif Sigurðardóttir, bæjarstjóri í Vesturbyggð flutti ávarp fyrir hönd sveitarfélaganna á sunnanverðum Vestfjörðum.

Myndir: Kristinn H. Gunnarsson.

DEILA