Arctic Circle: Guðmundur Fertram í pallborði

Ráðstefnan Hringborð norðurslóða Arctic circle hefst í dag í Hörpu í Reykjavík og stendur næstu þrjá daga.

Þar verða yfir 200 málstofur með um 700 ræðumönnum: utanríkisráðherrum, umhverfisráðherrum og forystumönnum vísindastofnana, umhverfissamtaka, fyrirtækja og frumbyggjasamfélaga. Auk þess verður á þinginu fjöldi móttaka, funda og listasýninga um málefni tengd Norðurslóðum, loftslagsbreytingum, hreinni orku, auðlindum hafsins og fleiri sviðum.

Yfir 2000 þátttakendur frá nærri 70 löndum taka þátt í þinginu. Meðal þeirra verða Lars Løkke Rasmussen, utanríkisráðherra Danmerkur, Sultan Al Jaber, forseti Loftslagsþings Sameinuðu þjóðanna COP28, sjö umhverfisráðherrar frá Norðurlöndum og Evrópu, auka fjölda annarra leiðtoga frá ýmsum löndum.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, Þórdís Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis,- orku- og loftslagsráðherra, Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra og Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra, verða ásamt fulltrúum frá vísindasamfélagi og viðskiptalífi Íslendinga meðal þátttakenda í þinginu.

Guðmundur Fertram Sigurjónsson, stofnandi og forstjóri, Kerecis, mun ásamt Kristian Villumsen forstjóra, Coloplast A/S, tala um hina sögulegu sölu á fyrsta sjávarlíftækni einhyrning Norðurslóða, Kerecis.

Upphafsmaður Hringborðsins er Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti Íslands.


Á lokakvöldi þingsins munu fimm vestfirsk fyrirtæki – Hraðfrystihúsið Gunnvör, Háafell, Arctic Fish, Klofningur og Kerecis – bjóða öllum þátttakendum til kvöldfagnaðar með sérstöku Ísafjarðar þema á Norðurbryggju Hörpu, þar sem Mugison og Helgi Björns munu leika fyrir gesti fram eftir kvöldi.

DEILA