Alþingi: spurt um endurmat á hættu af ofanflóðum

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþm.

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþm. hefur lagt fram á Alþingi fyrrspurn til Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra um hættumat vegna ofanflóða.

Spyr Halla Signý að því hvað líði vinnu við endurskoðun hættumats vegna ofanflóða, á þeim svæðum þar sem þegar hafa verið reist varanleg varnarvirki.

Fyrr á þessu ári kom út skýrsla starfshóps ráðuneytisins þar sem fram kemur að nauðsynlegt er að endurskoða hættumat þar sem reist hafa verið varnarvirki og sð endurskoða þurfi fjárþörf reglulega, að lágmarki á þriggja ára fresti.

Fjórðungsþing Vestfirðinga sem haldið var í byrjun mánaðarins ályktaði um þetta mál og skoraði þingið á umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra og fjármálaráðherra að leita allra leiða til þess að flýta vinnu við að endurmeta hættu á ofanflóðum þar sem þegar hafa verið byggðar ofanflóðavarnir.

Fjórðungsþingið minnti á upphaflegt hlutverk Ofanflóðasjóðs um verndun byggða fyrir ofanflóðum og flokkun og nýtingu hættusvæða.

Fyrirspurninni verður svarað innan skamms.

DEILA