KOSNINGAÞÁTTTAKA MEIRI MEÐ HÆKKANDI ALDRI

Kosningaþátttakan við sveitarstjórnarkosningarnar 2022 var 62,8% eða 4,4 prósentustigum minni en árið 2018 þegar hún var 67,2% en lengst af hefur hún verið á bilinu 80–88%. Mest hefur þátttaka í sveitarstjórnarkosningum orðið 87,8%, árið 1974.

Kosningaþátttakan var breytileg eftir aldri en jókst almennt með hækkandi aldri að því er kemur fram í tölum Hagstofunnar.

Hún var minnst hjá aldurshópnum 25–29 ára (44,3%) og næst minnst hjá 20–24 ára (45,0%).

Athygli vekur að á meðal nýrra ungra kjósenda í aldursflokknum 18-19 ára var kosningaþátttakan nokkru meiri eða 54,5%.

Hæst var hlutfallið hjá 70–74 ára (80,1%) en lækkaði síðan með hækkandi aldri úr því.

Þróunin var svipuð hjá körlum og konum hvað þetta varðar en meiri þátttaka var á meðal kvenna en karla fram til 70–74 ára aldurs þegar þetta snerist við og þátttaka karla meðal þeirra eldri var meiri en kvenna.

DEILA