Piff: Spjall með Þresti

Þresti Leó Gunnarssyni voru veitt heiðursverðlaun PIFF (Pigeon International Film Festival) á föstudagskvöld sem þakklætisvott fyrir framlag hans til leiklistar íslensku þjóðarinnar. Voru þau veitt eftir kvöldstund með Þresti á Dokkunni á Ísafirði þar sem farið var yfir langan feril hans sem leikara. Mikið var hlegið í fullsetnu húsi í Dokkunni á Ísafirði og fengu áhorfendur tækifæri til að spyrja leikarann spurninga.

Heiðursverðlaunin voru þau fyrstu sem veitt eru á þriðju hátíðinni en á þriðja hundrað manns horfðu á verðlaunaafhendinguna í beinni útsendingu á sunnudagskvöld. Finnska kvikmyndin Solar Wind Alley var kosin besta kvikmyndin í fullri lengd en á þriðja tug annarra verðlauna voru veitt. Verðlaunalistann í heild má finna á piff.is.

Sýndar voru 47 myndir frá 21 landi, og dreifði hátíðin sér yfir þrjú sveitarfélög; Ísafjörð, Súðavík og Patreksfjörð.

Á annan tug kvikmyndagerðarfólks sótti hátíðina til að fylgja myndum sínum eftir –  frá hinu ýmsu löndum þar af einn sem kom alla leið frá Tókýó.

DEILA