Hagamús

Hagamús – Ljósm. Erling Ólafsson

Hagamúsin er algengasta nagdýrið í laufskógum Bretlandseyja og norður Evrópu en hún finnst jafnframt í annarskonar gróðurlendum.

Útbreiðslan nær allt norður til Þrándheims í Noregi, austur til Mongólíu og Himalaja í Asíu, suður til Persaflóa og Miðjarðarhafs og N-Afríku, en þangað sem hún barst með mönnum líkt og til Íslands.

Hingað barst hún með mönnum á fyrstu öldum íslandsbyggðar og hefur verið hér síðan. Hér er hagamúsin á útmörkum útbreiðslu sinnar til norðurs og vesturs en engar hagamýs eru í Færeyjum. Útbreiðsla hennar nær allt frá sjávarmáli og upp í 3.300 metra hæð, í Atlasfjöllum í Afríku. Á Íslandi eru hagamýs útbreiddar á láglendi og upp í 400 metra hæð yfir sjávarmáli, þar sem gróður er að finna og finnast einnig strjált upp í 600 metra hæð. Eins finnast þær á á nokkrum eyjum við við landið og á stöku stöðum á miðhálendinu, svo sem á Snæfellsöræfum. Hagamúsin er eina nagdýrategundin sem lifir villt í náttúru landsins óháð manninum (undantekning er húsamús (Mus musculus) í Vestmannaeyjum).

Hagamúsin er útbreidd og algeng í vel grónu og sæmilega þurru landi. Þéttleiki að hausti er afar misjafn eftir gróðurlendum, í hvannastóði á Suðurlandi (30-50 mýs/ha), blönduðum laufskógi á Suðvesturlandi (20-25 mýs/ha) og ræktuðum túnum á Suðvesturlandi (4 mýs/ha). Viðkoma stofnsins er tengd framleiðslu fræja sem henta til geymslu yfir vetrartímann, s.s. hvönn. Stofnsveiflur eru miklar eftir árstíðum, mest er af músum á haustin og ræðst hámarksþéttleiki að einhverju leyti af hitastigi að vetri. Reglubundnar sveiflur í stofnstærð milli ára eru ekki þekktar hérlendis.

Almennt eru hagamýs taldar vera fræætur en þær éta flest sem ætilegt getur talist, ýmiskonar fræ, skordýr á ýmsum vaxtarskeiðum, snigla og dýrahræ. Hagamýs gegna mikilvægu hlutverki í hringrás næringarefna í flestum vistkerfum landsins.

Mýsnar fara ekki í dvala að vetrum og safna gjarnan matarforða í hreiður sín. Tímgun fer einungis fram yfir hlýjustu mánuði ársins og fæðast fyrstu ungar í maí-júní. Í góðu árferði geta hagamýs, sem fæðast snemma að vori, orðið kynþroska og eignast afkvæmi síðla sama sumars.

Hagamúsin er um 9-10 sentímetrar að lengd og vegur um 20-30 grömm. Eyrun og augun eru stór en skottið er lítið eitt styttra en líkaminn. Hagamýs eru brúnar með ljósan kvið og er skottið nánast hárlaust. Skinnið á skottinu er afar þunnt og rifnar auðveldlega af við átak.

Af vefsíðunni ni.is

DEILA