Patreksfjörður: fóðurprammar landtengdir

Orkubú Vestfjarða hefur sótt um til Vesturbyggðar lóð undir spennistöð við Þúfneyri. Spennistöðin er ætluð til landtengingar fóðurpramma fyrir laxeldi. Skipulags- og umhverfisráð Vesturbyggðar fagnar áformum um landtengingu fóðurpramma í Patreksfirði og  leggur ráðið til að Orkubúi Vestfjarða verði úthlutuð lóð á hentugum stað utantil á eyrinni m.t.t. nýtingar á svæðinu.

Endanleg staðsetning og lagnaleið skal ákveðin í samráði við sveitarfélagið og þá skal halda raski í lágmarki og vanda frágang eins og kostur er.

Skömmu fyrir síðustu jól var fóðurpramminn Ögurnes í Ísafjarðardjúpi tengdur við rafmagn úr landi. Þá sagði Þorsteinn Másson forstöðumaður Bláma í samtali við Bæjarins besta að prammi eins og Ögurnes brenni 100 – 120 þúsund lítrum af olíu á ári, sem muni alveg sparast með því að fá rafmagn úr landi.

Landtengingin minnkar kolefnisspor laxeldisins, minnkar flutninga og dælingu af olíu og notar þess í stað innlenda hreina orkugjafa. 

DEILA