Alþingi : sjö þingmenn vilja banna laxeldi – virðingarleysi gagnvart íbúunum

Fram er komin tillaga til þingsályktunar á Alþingi um bann við laxeldi í sjó. Flutningsmenn eru allir sex þingmenn pírata og einn þingmaður Viðreisnar. Flutningsmenn vilja að Alþingi feli matvælaráðherra að leggja til bann við fiskeldi í opnum sjókvíum við yfirstandandi endurskoðun laga um fiskeldi. Matvælaráðherra hefur nýlega kynnt drög að framtíðarstefnu fyrir lagareldi, þar með talið laxeldi, sem gerir ráð fyrir áframhaldandi uppbyggingu að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.

Mikill og óafturkræfur skaði á umhverfið

Flutningsmenn telja að íslenska laxastofninum og vistkerfinu í heild stafi hætta af fiskeldi í opnum sjókvíum og vísa sérstaklega í slysasleppninguna í Patreksfirði í ágúst. Telja þeir erfðablöndun eldislax við villtan lax og áhrif hennar á vistkerfið í heild alvarlegustu afleiðingu fiskeldisins á umhverfið. Auk þess séu fleiri þættir sem hafi neikvæð áhrif eins og t.d. „Úrgangur fiskeldis er t.d. losaður beint í hafið“,eitur gegn lús og áhyggjur séu af notkun fóðurröra úr plasti.

Í greinargerð sem fylgir með tillögunni segja flutningsmenn að nú „þegar hefur orðið mikill og óafturkræfur skaði á náttúru Íslands og með öllu óvíst hver langtímaáhrif á vistkerfi landsins verða. Því er nauðsynlegt að taka í handbremsuna og leyfa náttúrunni að njóta ásættanlegrar verndar og vafans sem henni ber.“ Flutningsmenn telja núverandi stöðu svo alvarleg að nauðsynlegt sé að stöðva fiskeldi í opnum sjókvíum sem fyrst. 

Erlendir karlar sem farandverkamenn

Þá er í greinargerðinni dregið í efa að jákvæð byggðaþróun og aukið atvinnuöryggi fylgi laxeldinu. Vissulega hafi íbúum fjölgað á þessum svæðum í kjölfar fjölbreyttara atvinnuframboðs. „En þegar rýnt er í tölur sést að erlendum ríkisborgurum hefur fjölgað töluvert en íslenskum ríkisborgurum fækkað. Körlum hefur fjölgað en konum og börnum fækkað. Þessar tölur gefa til kynna að um sé að ræða erlenda karlkyns ríkisborgara sem sækja sér tímabundna atvinnu á svæðin og að mörg af þessum störfum styðji ekki raunverulega samfélagsuppbyggingu.“

Virðingarleysi gagnvart byggðunum og erlendum íbúum

Í stað laxeldisins leggja flutningsmenn til að ríkisstjórnin skuli efla nýsköpun og fjölbreytt og umhverfisvæn atvinnutækifæri í byggðarlögum sem byggja afkomu sína á fiskeldi í opnum sjókvíum.

Sigríður Ólöf Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri Vestfjarðastofu er ósátt við ýmislegt í tillögunni og einkum greinargerðinni. Hún sagði í samtali við Bæjarins besta að þar birtist skýrt virðingarleysi gagvart byggðunum og gagnvart erlendum íbúum okkar. Laxeldið sé mikilvæg atvinnugrein á Vestfjörðum og hafi eflt byggðirnar. Í þessari atvinnugrein starfi útlendingar eins og í mörgum öðrum atvinnugreinum á Íslandi og þeir hafi sest hér að. Rökstuðningurinn í greinargerðinni beri með sér, ef til vill óafvitandi, lítilsvirðingu og jafnvel andúð í garð útlendinga. Eins sé þetta stef um eitthvað annað óásættanlegt, hvað á það að vera og hvenær kemur það spurði Sigríður.

Umræða um slysasleppingar á Alþingi

Í dag kl 14 verður sérstök umræða á Alþingi um slysasleppingar í sjókvíaeldi. Máldhefjandi er einn af þingmönnum kjördæmisins Lilja Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir (B) og til andsvara verður matvælaráðherra, Svandís Svavarsdóttir. Lilja sagði í þingræðu þann 19. september mikilvægt að tryggja öruggara eftirlit og viðbrögð við slysasleppingu svo að svona ástand eins og nú er endurtaki sig ekki.

DEILA