Verðlaunaafhending alþjóðlegu kvikmyndahátíðarinnar PIFF verður sýnd í beinni útsendingu frá Ísafirði um allan heim kl. 21 í kvöld. Þá verður tilkynnt hverjir hljóta verðlaun í fjölmörgum flokkum þeirra mynda sem sýndar voru á hátíðinni í ár. Að því loknu verður slegið upp í heljarinnar veislu á Dokkunni til að fagna hátíðinni sem lýkur í dag. Ísfirski tónlistamaðurinn Skúli mennski heldur svo uppi stuðinu fyrir gesti hátíðarinnar á uppskeruhátíð PIFF.
En kvikmyndaveislunni er ekki lokið fyrr en Skúli mennski slær lokatóninn því í dag verður nóg í boði í Ísafjarðarbíói. Dagskráin hefst með þýsku barnamyndinni Alfons Jitter – Ævintýraleg skólaferð. „Fljúgandi makkarónur með tómatsósu, spennandi nætur í kringum varðeldinn og hættuleg klifurferð gerir bekkjarferðina að ævintýri sem Alfons og félagar munu aldrei gleyma,“ segir um myndina á PIFF.is.
Einnig verða sýndir tveir stuttmyndapakkar – sá fyrri kl. 16 og seinni kl. 18. Þar á meðal er stuttmyndin Villimey eftir Ísfirðinginn Diljá Jökulrós Pétursdóttur og fjallar um tvær ungar stúlkur í litlum smábæ. Myndin gerist árið 1992 og byggir á sönnum sögum.
Einnig er að finna á dagskránni myndina The Noblest Creature eða Göfugasta skepnan eftir íranska leikstjórann og leikkonuna Nika Shahbazzadeh sem var einn af gestum PIFF á síðasta ári. Sú mynd fjallar um Borna og Ahoo sem rífast um það hvort þau eigi að senda hund sinn í hundaslag og afleiðingar þess.
Dagskrána í heild má finna á piff.is.
Útsendingin frá verðlaunaafhendingunni verður m.a. aðgengileg á Facebooksíðu Viðburðastofu Vestfjarða.
https://www.facebook.com/vidburdastofa