Laugardaginn 7. október var haldið málþing í Háskólasetrinu á Ísafirði sem fjallaði um félagslandbúnað (e. community supported agriculture). Málþingið var hluti af verkefninu „Ljúffengur matur í samhljómi við loftslagið,“ en að því stóðu vísindamenn frá Háskóla Íslands og Gróandi á Ísafirði. Til stendur að halda alls sex viðburði um landið sem mótast af því hvað hvert svæði hefur upp á að bjóða og nú þegar hefur verið farið á Hallormsstað.
Gróanda þekkja margir en þar er stundaður félagslandbúnaður. Hann virkar þannig að íbúar á svæðinu geta lagt fram frjáls framlög og fengið eða nælt sér í grænmeti í staðinn. Einn starfsmaður sér að mestu um ræktunina ásamt nokkrum lærlingum en félagar í Gróanda geta lagt fram vinnustundir hafi þeir áhuga fyrir því.
Hildur Dagbjört Arnardóttir stofnandi Gróanda segir að mikill uppgangur sé í félagslandbúnaði víða um heim og rekstrarformið gefi góða raun. Landbúnaður af þessu tagi er til dæmis mjög algengur í Japan, yfir 7000 slík verkefni eru í Bandaríkjunum, 150 í Englandi og 85 í Noregi svo fátt eitt sé nefnt. Algengast er að félagslandbúnaður sé rekinn innan lögbýla, þar sem bóndi með landrými býður fólki í félag sem síðan fjármagnar starfsemina og fær aðgengi að vörunum.
Á málþinginu á Ísafirði kom fram að vel sé hægt að halda félagslandbúnað með allskyns landbúnaðarvörur, ekki einungis grænmeti heldur einnig t.d. kjöt, egg og mjólkurafurðir. Nýliðun í landbúnaði reynist mörgum fjötur um fót en mögulega er þarna komið rekstrarform sem auðveldar ungum bændum að hefja búskap. Það er vegna þess að félagslandbúnaður eykur gagnsæi og með því að fjarlægja alla milliliði, lendir meira í vasa bóndans og tekjuöflun verður öruggari. Þá er þetta leið til að tengja betur saman þá sem framleiða matinn og þá sem njóta hans. Félagið heldur uppi landbúnaðinum og sér til þess að fólk fái matvörur sem eru útbúnar með aðferðum sem þau hafa áhuga á að styðja við, sem sagt með velferð manna og dýra að leiðarljósi. Einnig er þarna komin leið fyrir fólk til að tengjast aftur í sveitirnar og kynna þær fyrir börnum sínum.
Niðurstöður málþingsins voru þær að þó nokkrir höfðu áhuga á að hefja félagslandbúnað, annað hvort sem bændur eða félagar hjá öðrum. Hildur Dagbjört hafði þetta um málið að segja: „Það þarf að vera praktískur og fjárhagslegur stuðningur við þá sem vilja hefja félagslandbúnað. Þar sem félagslandbúnaður styður við alla þætti sjálfbærni og loftslagsmála og dekkar til dæmis fjölmargar aðgerðir í Matvælastefnu Íslands þá þarf að skoða af alvöru hvernig yfirvöld geta lagt sitt af mörkum til að ryðja veginn. Til dæmis með því að endurskoða reglugerðir og hafa starfsmann sem getur aðstoðað við að koma félagslandbúnaði á Íslandi á fæturna, finna leiðir og leysa úr flækjum í kerfinu.“