Höfundur bókarinnar, Helgi Máni Sigurðsson, sagnfræðingur og fyrrum safnvörður, hefur í fjölda ára unnið að rannsóknum á fornbátum, sögu þeirra og varðveislu.
Í þessari bók, Fornbátar á Íslandi, eru skipa- og bátaarfi þjóðarinnar gerð skil á mjög áhugaverðan og læsilegan hátt.
Fjallað er um 54 fleytur sem varðveist hafa og er þar aðeins um úrval að ræða. Sá elsti er frá um 1820 og hinn yngsti frá 1963.
Höfundur lýsir bátunum og segir sögu þeirra en fjallar jafnframt um sjómennina sem brúkuðu þá. Í hvoru tveggja tekst honum vel til, hann dýpkar til að mynda mjög skilning á eiginleikum og notkun bátanna og virði þeirra fyrir samfélagið.
Fjölmargir einstaklingar eru kynntir til sögunnar í bókinni og ríkulegt myndefni styður vel við frásögnina.