Stuttmyndir, spenna og spjall einkennir dagskrá alþjóðlegu kvikmyndahátíðinnar PIFF í dag. PIFF-liðar sýna á Patreksfirði í fyrsta sinn og riðið verður á vaðið með stuttmyndapakka kl. 16 í Skjaldborgarbíói. Hann inniheldur meðal annars dönsku stuttmyndina Ivalu sem tekin var á Grænlandi og komst í úrslit á Óskarsverðlaununum. Auk spænsku myndinnar Votamos sem komst á stuttlista verðlaunanna. Þá verður sýnd dansk-íslenska stuttmyndin That time at the Beach, Huller i Sandet eða Strandglöp, eftir Odd S. Hilmarsson sem er að sækja PIFF-hátíðina annað árið í röð. Myndin var sýnd á RIFF fyrir nokkrum dögum og fékk mjög góðar viðtökur.
Einnig fara fram sýningar í Súðavík á stuttmyndunum Afterlife Photo – eða Ljósmynd af framhaldslífi – og enska fantasían Wild Summon – eða Villtur lax – þar sem fylgt er eftir lífi lax í mannsmynd. Mynd sem allir náttúruunnendur ættu ekki að láta framhjá sér fara.
Í brugghúsinu Dokkunni á Ísafirði kl. 20 mun Arnfinnur Daníelsson leikari spjalla við heiðursgest hátíðarinnar Þröst Leó Gunnarsson um hans langan feril í leiklistinni. Gestum er velkomið að taka þátt í heillandi kvöldstund þar sem kafað er ofan í skapandi eðli, innsæi og hápunkta í listalífi eins ástsælasta leikara þjóðarinnar.
Þá verða einnig sýndar stuttmyndir og ástralska spennumyndin The Cost í Ísafjarðarbíó en hún tæklar afleiðingar ofbeldis og þegar almennir borgarar taka réttvísina í eigin hendur. Mögnuð mynd sem rétt er að vara viðkvæma við.
Dagskrá kvöldsins má sjá í heild á heimasíðunni piff.is.