Júlís Geirmundsson ÍS: skipverja dæmdar miskabætur

Skipverja á Júlíusi Geirmundssyni ÍS voru í gær í Héraðsdómi Reykjavíkur dæmdar miskabætur 400.000 kr. auk 1.800.000 kr. í málskostnað. Var skipstjóri skipsins dæmdur til að greiða framangreindar fjárhæðir þar sem hann væri skaðabótaskyldur gagnvart stefnanda með því að valda honum líkamstjóni, bæði andlegu og líkamlegu, með stórfelldu gáleysi.

Skipstjórinn hafði áður verið ákærður fyrir Héraðsdómi Vestfjarða fyrir brot að 34. grein sjómannalaga þar sem segir :“Ef ástæða er til að ætla að skipverji sé haldinn sjúkdómi sem hætta stafar af fyrir aðra menn á skipinu skal skipstjóri láta flytja sjúklinginn í land ef eigi reynist unnt að verjast smithættu á skipinu.“ Skipstjórinn játaði þar sök.

Framkvæmdastjóra Hraðfrystihússins Gunnvarar hf og útgerðarstjóra var einnig stefnt en þeir voru báðir sýknaðir þar sem ekki leikur „vafi á að ábyrgð á því sem fram fer um borð þegar skipið er undir skipstjórn hvílir á skipstjóra þess samkvæmt III. kafla siglingalaga nr. 34/1985 en þau lög gilda um öll skip sem skráð eða skráningarskyld eru á Íslandi, sbr. 1. gr. laganna.“ segir í dómnum. Ennfremur segir að engar heimildir séu í nefndum ákvæðum fyrir útgerðarstjóra eða framkvæmdastjóra útgerðar til að grípa fram fyrir hendur skipstjóra hvað þetta varðar.

Málskostnaður milli stefnanda og þeirra tveggja er felldur niður.

Í úrskurðarorði dómsins um skaðabótaskylduna segir að andleg veikindi sem hafi „hrjáð hafa stefnanda í kjölfar Covid-19 veikinda hans falla að skilyrðum 26. gr. skaðabótalaga enda valdið af stórfelldu gáleysi og fela í sér líkamstjón í skilningi ákvæðisins þótt því verði ekki slegið föstu að tjón þetta sé varanlegt. Stefnanda verða því dæmdar miskabætur að álitum eins og nánar greinir í dómsorði.“ Krafist var 2.000.000 kr. í miskabætur.

Skipið hélt til veiða 27. september 2020 og kom aftur í höfn 18. október. Í ljós kom að 22 af 25 í áhöfn hafi verið með einkenni af covid19. Skipið lét úr höfn sama dag en var snúið til hafnar þegar niðurstaða var fengið úr sýnum sem tekin voru þann 18. Kom skipið til hafnar að nýju þann 20. október.

Sjópróf fóru fram 23. nóvember 2020 og skýrslur teknar af 14 skipverjum. Ákæra var gefin út á hendur skipstjóra 15. desember 2020 og málinu lauk með viðurlagaákvörðun í janúar 2021.

DEILA