Ísafjarðarbær: ríkið styrkir fráveitur

Frá Flateyri.

Ísafjarðarbær hefur fengið formlega afgreiðslu Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins á umsóknum styrk vegna fráveituframkvæmdir í sveitarfélaginu.

Veittur er styrkur að fjárhæð 30% af staðfestum heildarkostnaði við framkvæmdir ársins 2023 á Flateyri og á Suðureyri. Ekki kemur fram hver áætlaður kostnaður er.

Fyrr á árinu veitti Fiskeldissjóður styrki til sömu framkvæmda. Þar fékk fráveita á Flateyri 22.010.000 kr styrk og hreinsivirki og sameining útrása á Suðureyri 24.270.000 kr. styrk.

Í minniblaði sviðsstjóra umhverfis- og eignasviðs segir að verkefnin séu í öllum aðaldráttum eins. Sameina eigi útrásir og setja upp hreinsivirki til að hreinsa skólp. Um er að ræða fyrsta áfanga í sameiningum útrása. Hreinsistöðvarnar eru gámar frá framleiðandanum Hydra Water í Svíþjóð. Gert er ráð fyrir að gámarnir verði klæddir með timburklæðningu.

Ekki eru gefnar upplýsingar um áætlaðan heildarkostnað og í viðauka við fjárhagsáætlun 2023, sem bæjarstjórn hefur samþykkt eru fjárhæðir ekki birtar. Í fjárhagsáætlun eru framkvæmdir við fráveitu áætlaðar 66.429.000 kr. og þar af greiði aðrir 19.929.000 kr. og úr sjóðum bæjarins komi 46.500.000 kr.

Miðað við fengna styrki má ætla að sveitarfélagið greiði lítið sem ekkert af framkvæmdunum.

DEILA