Ísafjörður: vilja lagfæringu á vegi í Tungiskógi

Félag skógarbúa í Tunguskógi hefur farið fram á það við Ísafjarðarbæ að vegurinn í Tunguskógi verði lagfærður. Er vegurinn sagður slæmur, holóttur og stórgrýti á honum. Lítið viðhald mun hafa verið á veginum síðustu ár og aðeins hluti vegarins var heflaður í sumar. Mikil umferð er um veginn og bent er á að hann sé einnig mikilvæg öryggisleið ef slys verða.

Í minnisblaði sviðsstjóra umhverfis- og eignasviðs sem lagt var fyrir bæjarráð segir að vegurinn inn í Tunguskóg, inn að tjaldsvæði sé einbreiður vegur með bundnu slitlagi með mætingarútskotum. Á þessum hluta vegarins er bundið slitlag, sem er í þokkalegu standi, þó sumstaðar sé farið að kvarnast upp úr köntum.

Almennt hefur malarstígurinn verið heflaður á vormánuðum, jafnframt verið borið í hann. Hefðbundin árleg verk. Vorið 2023 var keyrt í veginn 25 rúmmetrum af efni og vegurinn heflaður tvisvar sl. sumar skv. forstöðumanni Þjónustumiðstöðvar áhaldahúss.

Í minniblaðinu segir að vandamál á vormánuðum tengdust drenskurði ofan til við veg sem var í ólagi, þannig að vatn flæddi síður yfir veginn. Skolast þá fínefni úr malarvegum og ástand þeirra versnar til muna og drénið var ekki til þess að bæta það ástand.

Ef vel ætti að vera að mati sviðsstjórans þyrfti að setja olíumöl í veginn, mögulegur kostnaður vegna olíumalar og undirlags gæti verið um 18 m.kr. miðað við þær forsendur að það sé fjögurra metra breidd og 500 m.

Bæjarráðið vísaði málinu áfram til fjárhagsáætlunargerðar til frekari ákvörðunar um tímasetningu og verðmat.

DEILA